Erlent

Trump aflýsir ferð til Suður-Ameríku vegna ástandsins í Sýrlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump er almennt sagður tregur til að ferðast út fyrir Bandaríkin. Ferðin til Perú átti að vera á föstudag. Um helgar hefur Trump yfirleitt flýtt sér á sumardvalarstað sinn á Flórída til að spila golf.
Trump er almennt sagður tregur til að ferðast út fyrir Bandaríkin. Ferðin til Perú átti að vera á föstudag. Um helgar hefur Trump yfirleitt flýtt sér á sumardvalarstað sinn á Flórída til að spila golf. Vísir/AFP
Hvíta húsið segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti sé hættur við að taka þátt í ráðstefnu Ameríkuríkja um helgina. Í staðinn er hann sagður ætla að hafa umsjón með viðbrögðum ríkisstjórnar sinnar við eiturvopnaárás í Sýrlandi.

Til stóð að Trump legði í hann til Lima í Perú þar sem ráðstefnan fer fram á föstudag. Í stuttri yfirlýsingu í dag sagði Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, hins vegar að Trump hefði beðið Mike Pence, varaforseta sinn, um að fara til Perú í staðinn. Trump ætlaði að einbeita sér að ástandinu í Sýrlandi, að því er segir í frétt New York Times.

Bandaríkin og önnur vestræn ríki hafa sakað Sýrlandsstjórn um að hafa staðið að baki eiturvopnaárás í bænum Douma sem er á valdi uppreisnarmanna um helgina. Rúmlega fjörutíu manns féllu í árásinni. Trump boðaði meiriháttar ákvörðun varðandi Sýrlandi innan 24-48 klukkustunda í gær.

Ríkisstjórn Bashar al-Assad forseta og rússnesk stjórnvöld sem styðja hann hernaðarlega hafa þvertekið fyrir að bera ábyrgð á árásinni og neitað jafnvel að hún hafi raunverulega átt sér stað.

Bandarískir blaðamenn gera að því skóna að Trump hafi ekki verið sérlega spenntur fyrir ferðinni til Perú til að byrja með. Fyrirfram var búist við því að ferðin gæti verið óþægileg fyrir Bandaríkjaforseta vegna orðræðu hans í garð ríkja eins og Mexíkó og innflytjenda þaðan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.