Erlent

Trump ætlar að ákveða viðbrögð við eiturvopnaárás á næstu sólahringum

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump ræddi um eiturvopnaárásina á ríkisstjórnarfundi í dag.
Trump ræddi um eiturvopnaárásina á ríkisstjórnarfundi í dag. Vísir/AFP
„Meiriháttar ákvarðanir“ verða teknar um svar Bandaríkjastjórnar við eiturvopnaárásinni í Sýrlandi á næstu 24 til 48 klukkustundunum. Þetta sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í dag. Lýsti hann árásinni sem „hryllilegri“ og „hræðilegri“.

Stjórn Bashars al-Assad forseta hefur verið kennt um eiturvopnaárás sem hafi banað að minnsta kosti fjörutíu manns í bænum Douma. Trump sagði á Twitter í gær að Sýrlandsstjórn og Rússar myndu greiða fyrir árásina. Rússar hafa barist með stjórnarhernum í borgarastríðinu í Sýrlandi.

Trump sagði við fréttamenn í dag að stjórn hans hefði miklar áhyggjur vegna árásarinnar. Útilokaði hann ekki hernaðaðgerðir í Sýrlandi, að því er segir í frétt Washington Post.

„Þetta snýst um mannúð og það má ekki leyfa þessu að gerast,“ sagði forsetinn meðal annars og hét því að komast til botns í hver hefði staðið að árásinni.

Rússar hafa neitað því að efnavopnaárás hafi yfir höfuð átt sér stað, hvað þá að þeir eða að Assad-stjórnin hafi borið ábyrgð á henni.

„Fyrir mér er ekki mikill vafi en herforingjarnir verða að finna út úr þessu,“ svaraði Trump þegar hann var spurður hvort hann efaðist um hver hefði staðið að árásinni.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ætlar að fjalla um eiturvopnaárásina á neyðarfundi í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×