Erlent

FBI réðst inn á skrif­stofu lög­manns Banda­ríkja­for­seta

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Michael Cohen hefur verið persónulegur lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta um nokkurt skeið.
Michael Cohen hefur verið persónulegur lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta um nokkurt skeið. Vísir/AFP
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, réðst í dag inn á skrifstofu Michaels Cohen, lögmanns Donalds Trump Bandaríkjaforseta, og lagði þar hald á skjöl sem einhver tengjast greiðslum forsetans til klámstjörnunnar Stormy Daniels.

Í frétt New York Times segir að saksóknarar hafi fengið leitarheimild frá sérstökum saksóknara, Robert Mueller, sem stýrir rannsókn á meintum tengslum Rússa og starfsmanna í kosningaliði Trumps.

Sjá einnig: „Þetta er falleg stelpa. Það væri leitt ef eitthvað kæmi fyrir móður hennar“

Stephen Ryan, lögfræðingur Cohens, sagði leitina „fullkomlega óviðeigandi og ónauðsynlega.“ Þá sagði hann Cohen hafa verið samvinnuþýðan og afhent yfirvöldum skjöl í þúsundatali, þar á meðal tölvupósta, afrit af samtölum milli Cohens og Trumps, skattaframtöl og fyrirtækjaskrár.

Einhver skjalanna eru auk þess talin tengjast máli klámstjörnunar Stormy Daniels en Cohen viðurkenndi í febrúar síðastliðnum að hafa greitt Daniels, sem heitir réttu nafni Stephanie Clifford, 130 þúsund dali í aðdraganda forsetakosninganna 2016 í skiptum fyrir þagmælsku hennar. Hún hefur haldið því fram að hafa átt í ástarsambandi við Donald Trump.

Þá hefur Cohen einnig verið rannsakaður í tengslum við Rússarannsókn Muellers.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×