Erlent

Sakar Vesturlönd um barnaskap og blekkingar í máli Sergei Skripal

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sergei Lavrov er utanríkisráðherra Rússa.
Sergei Lavrov er utanríkisráðherra Rússa. vísir/epa
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sakar Vesturlönd um barnaskap og blekkingarleiki í máli Sergei Skripal. Hann segir að stjórnvöld í Bretlandi séu að nota málið til að beina sviðsljósinu frá eigin vandræðagangi í tengslum við Brexit.

Þetta kom fram í máli utanríkisráðherrans á blaðamannafundi í dag. Samskipti Rússlands og vestrænna ríkja hafa farið versnandi síðustu vikur vegna Skripal-málsins og hafa deiluaðilar skipts á að skipta starfsmönnum sendiráða úr landi. Rússar hafa neitað öllum ásökunum í málinu og Lavrov segir Breta og Bandaríkjamenn beita lygum og blekkingum.

„Eins og við sögðum þegar við vorum börn: "Sá sem byrjaði verður að vera fyrstur að hætta.“ Við viljum ekki leika okkur eins og börn gera en félagar okkar hafa einmitt stundað það,“ sagði Lavrov.

Þá segir hann bresk stjórnvöld nota málið til að beina sviðsljósinu frá eigin vandræðagangi í tengslum við Brexit.

„Það er hægt að skýra málið með öðrum hætti. Sérfræðingarnir tjá sig um þetta. Þeir segja að þetta geti einmitt komið sér vel fyrir sérsveitir Breta, en þær hafa einmitt verið þekktar fyrir að hafa leyfi til að drepa. Þetta gæti einnig komið sér vel fyrir bresku ríkisstjórnina, sem hefur auðvitað átt undir högg að sækja eftir að henni láðist að uppfylla óskir kjósenda um Brexit-skilyrðin.“

Um tuttugu ríki hafa vísað rússneskum erindrekum úr landi vegna gruns um að rússnesk yfirvöld standi á bak við árásina á Skripal-feðginin. Yfir hundrað erindrekum hefur því verið vísað frá vestrænum ríkjum en Rússar þvertaka enn fyrir að hafa staðið á bak við árásina. Rússar hafa svarað í sömu mynt og einnig rekið fjölda erlendra erindreka úr landi. Þá var ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Sankti Pétursborg lokað á dögunum.

Sergei Skripal er fyrrverandi rússneskur njósnari en hann var fangelsaður í Rússlandi árið 2006 fyrir að hafa gefið leyniþjónustu Bretlands upplýsingar um útsendara Rússa í Evrópu. Sergei Skrípal liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi og er í lífshættu en dóttir hans, Júlía Skripal, er ekki lengur í lífshættu og er á batavegi.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×