Erlent

Segir Bandaríkin og Bretland reyna að neita Rússlandi um HM

Þórdís Valsdóttir skrifar
Maria Zakharova talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands.
Maria Zakharova talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands. Vísir/afp
Talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands hefur sakað Bretland og Bandaríkin um að reyna að koma í veg fyrir að Rússland fái að halda heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem fram fer í sumar. BBC greinir frá.

Maria Zakharova talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands kom fram í löngu viðtali á rússneskri sjónvarpsstöð þar sem hún sagði að helsta markmið ríkjanna tveggja væri að „taka HM frá Rússlandi“.

Bretar hafa leitað leiða til þess að refsa Rússum eftir taugaeiturárás í Salisbury fyrr í mánuðinum. Þeir hafa sakað Rússa um að hafa reynt að myrða Rússann Sergei Skrípal, fyrrverandi njósnara, og dóttur hans Júlíu með svokölluðu novichok-taugaeitri í bænum Salisbury þann 4. mars.

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að Bretar ætli að reka 23 rússneska njósnara úr landi vegna árásarinnar. Þá hafa Bandaríkin rekið 60 rússneska erindreka úr landi og einnig hafa um 100 rússneskum erindrekum verið vísað úr landi í öðrum ríkjum. Um tuttugu ríki hafa gripið til aðgerða sem svar við árásinni.

Rússar hafa svarað í sömu mynt og einnig rekið fjölda erlendra erindreka úr landi. Þá var ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Sankti Pétursborg lokað á dögunum.

Anatolíj Antonov, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, mótmælti aðgerðum Bandaríkjanna harðlega og sagði þær ólöglegar. Þá segir hann engar sannanir fyrir því að Rússar hafi komið að eitrun Sergei Skripal.

Sergei Skrípal liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi og er í lífshættu en dóttir hans, Júlía Skripal, er ekki lengur í lífshættu og er á batavegi.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×