Erlent

Vilja að Bandaríkjaforseti beri vitni í máli klámmyndaleikkonunnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Samband Trump og Clifford á að hafa átt sér stað árið 2006. Þá var Trump tiltölulega nýgiftur núverandi eiginkonu sinni.
Samband Trump og Clifford á að hafa átt sér stað árið 2006. Þá var Trump tiltölulega nýgiftur núverandi eiginkonu sinni. Vísir/AFP
Lögmaður klámmyndaleikkonunnar Stephanie Clifford hefur lagt fram kröfu um að Donald Trump Bandaríkjaforseti beri vitni um fullyrðingar hennar um að þau hafi átt í kynferðislegu sambandi og hvort hann hafi vitað af samkomulagi sem átti að tryggja að hún þegði um það.

Clifford, sem er betur þekkt undir sviðsnafninu Stormy Daniels, höfðaði málið til að losna undan þagmælskusamningi sem Michael Cohen, persónulegur lögmaður Trump, gerði við hana rétt fyrir forsetakosningarnar árið 2016. Cohen segist hafa greitt Clifford 130.000 dollara úr eigin vasa og að hvorki Trump né framboð hans hafi greitt honum á móti.

Auk þess að falast eftir skýrslu af Trump vill Michael Avenatti, lögmaður Clifford, að Cohen beri vitni. Þær skýrslutökur færu fram á bak við luktar dyr en ljúgi menn í þeim geta þeir átt yfir höfði sér ákæru fyrir meinsæri, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Trump hefur þvertekið fyrir að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Clifford.

Avenatti segir að tilgangurinn sé að komast að því hvort að Trump hafi veitt samkomulaginu blessun sína. Clifford telur sig lausa mála vegna þess að Trump skrifaði aldrei undir samkomulagið. Lögmenn Trump hafa hins vegar krafið hana um tuttugu milljónir dollara í sektir fyrir að brjóta gegn því.

Greiðsla Cohen til Clifford er jafnvel talin hafa strítt gegn bandarískum kosningalögum. Í henni hafi í raun falist framlag til forsetaframboðs Trump sem hafi ekki verið gefið upp opinberlega og sé langt yfir lögbundnu hámarki um slík framlög.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×