Erlent

Tesla-bifreið var á sjálfstýringu þegar hún hafnaði á vegartálma

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Tesla bifreiðin var stillt á sjálfstýringu.
Tesla bifreiðin var stillt á sjálfstýringu. Vísir/AFP
Kveikt var á sjálfstýringu Tesla-bifreiðar þegar banaslys varð í Kaliforníu 23. mars. Tesla-bifreiðin af tegundinni Model X hafnaði á vegartálma úr steinsteypu og kviknaði í henni í framhaldinu.

Tesla segir að 38 ára gamall ökumaður bifreiðarinnar hafi kveikt á sjálfstýringu bílsins stuttu áður en slysið átti sér stað. Ökumaðurinn fékk nokkrar viðvaranir um að taka við stýrinu áður en slysið varð. Hendur ökumannsins voru ekki á stýrinu sex sekúndum fyrir áreksturinn. Ekki liggur fyrir hvort að skynjarar bílsins hafi numið vegartálmann.

Sjálfstýringarkerfi Tesla-bifreiðanna getur bremsað, gefið í og stýrt sjálft undir ákveðnum kringumstæðum en það er flokkað sem hjálparkerfi ökumanns og því ekki ætlast til að það sé notað eitt og sér. Gert er ráð fyrir að ökumaðurinn sé alltaf með hendurnar á stýrinu.

Töluverð umræða hefur átt sér stað um öryggi sjálfkeyrandi bíla í kjölfar banaslyss í Arizona í Bandaríkjunum þar sem sjálfkeyrandi bíll á vegum farveitunnar Uber kom við sögu. Bíllinn ók á gangandi konu með þeim afleiðingum að hún lést. Uber hefur í kjölfarið stöðvað tilraunir með sjálfkeyrandi bíla í Norður-Ameríku.


Tengdar fréttir

Sjálfkeyrandi bílar Uber í basli fyrir banaslysið

Tilraunir fyrirtækisins höfðu ekki gengið eftir væntingum og ökumenn þurftu að grípa mun oftar inn í en hjá öðrum fyrirtækjum sem vinna að því að þróa sjálfkeyrandi bíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×