Erlent

Uber hafði fækkað skynjurum á sjálfkeyrandi bílum fyrir banaslys

Kjartan Kjartansson skrifar
Uber stöðvaði tilraunir með sjálfkeyrandi bíla í Norður-Ameríku eftir banaslysið.
Uber stöðvaði tilraunir með sjálfkeyrandi bíla í Norður-Ameríku eftir banaslysið. Vísir/AFP

Farveitan Uber fækkaði skynjurum sem greina hindranir á veginum þegar fyrirtækið skipti um sjálfkeyrandi bíla árið 2016. Sjálfkeyrandi bílar Uber höfðu eftir það fleiri blindbletti en keppinautarnir og fyrri útgáfur fyrirtækisins sjálfs. Yfirvöld í Bandaríkjunum rannsaka nú banaslys þar sem sjálfkeyrandi bíll Uber ók á gangandi konu.

Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir fimm fyrrverandi starfsmönnum Uber og sérfræðingum í sjálfkeyrandi bílum. Bíllinn sem ók á 49 ára gamla konu í borginni Tempe í Arizona í síðustu viku var aðeins með einn leysinema á þakinu. Á fyrri útgáfum sjálfkeyrnadi bíla fyrirtækisins voru sjö slíkir nemar. Til samanburður eru sex leysinemar á sjálfkeyrandi bílum Waymo og fimm á bílum General Motors.

Fækkun nemanna veldur því að bílarnir greina ekki gangandi vegfarendur fyllilega, að sögn fyrrverandi starfsmanna Uber. Nemarnir frá fyrirtækinu Velodyne greina hluti 360 gráður í kringum sig en hafa hins vegar takmarkað lóðrétt sjónsvið. Því sjá þeir illa fyrirbæri sem standa lágt.

Forsvarsmenn Velodyne hafa þegar sagt að þeir séu gáttaðir á banaslysinu í Tempe. Slysið átti sér stað í myrkri en það á ekki að vera nein hindrun fyrir geislana. Þá hefur komið fram að tilraunir Uber með sjálfkeyrandi bíla hafi ekki gengið sem skyldi. Mannlegir ökumenn þyrftu að grípa inn í á aðeins um tuttugu kílómetra fresti á meðan sumir samkeppnisaðilar kæmust um 9.000 kílómetra án inngripa manna.

Uber svaraði ekki spurningum Reuters og vísaði þess í stað á Velodyne. Framleiðandinn viðurkennir að nemi á þaki sé með blindblett um það þrjá metra í kringum bílinn. Velodyne segir að nemarnir þurfi að vera fleiri.


Tengdar fréttir

Gafst stuttur tími til að bregðast við

Lögreglan í Tempeborg í Arizona hefur birt myndband sem sýnir það sjálfkeyrandi bíll, á vegum akstursþjónustunnar Uber, ók á gangandi vegfaranda með þeim afleiðingum að hann lést.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.