Erlent

Stofnandi Facebook gengst við mistökum og lofar að vernda gögn notenda

Kjartan Kjartansson skrifar
Zuckerberg hafði ekkert tjáð sig um mál Cambridge Analytica þar til hann birti færslu á Facebook í dag.
Zuckerberg hafði ekkert tjáð sig um mál Cambridge Analytica þar til hann birti færslu á Facebook í dag. Vísir/Getty
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, hefur rofið þögn sína eftir fréttir af því að breskt greiningarfyrirtæki hafi notað illa fengnar persónuupplýsingar um tugi milljóna notenda samfélagsmiðilsins. Hann viðurkennir að mistök hafi átt sér stað og heitir því að verja persónuupplýsinga notenda.

Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Zuckerberg að hann hafi gripið til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að safna upplýsingum um notendur síðunnar. Ásakanir hafa komið fram um að Cambridge Analytica, breskt greiningarfyrirtæki sem vann fyrir forsetaframboð Donalds Trump árið 2016, hafi komist yfir upplýsingar um fimmtíu milljónir notenda Facebook með óheimilum hætti.

Svo virðist sem að Facebook hafi vitað af svikunum frá árinu 2015 en ekki gengið á eftir því að gögnunum hefði verið eytt þar til stórir erlendir fjölmiðlar voru í þann veginn að birta umfjallanir um þau fyrir helgi. Þá bannaði Facebook skyndilega snjallforrit sem höfðu verið notuð til að safna upplýsingunum.

Facebook hefur sætt harðri gagnrýni í kjölfarið og hlutabréfaverð fyrirtækisins hrapað. Bæði breskir og bandarískir þingmenn hafa krafist þess að Zuckerberg gefi þeim sjálfur skýrslu vegna málsins. Zuckerberg hefur fram að þessu falið meðstjórnendnum sínum að sitja fyrir svörum um mál sem varða áróður og gervifréttir á Facebook. Fyrirtækið hefur átt í vök að verjast um nokkra hríð í ljósi upplýsingahernaðar með falsfréttir og áróður sem var háður á Facebook í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016.

„Góðu fréttirnar eru þær að við gripum til mikilvægustu aðgerðanna til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig fyrir mörgum árum. Við gerðum hins vegar líka mistök, það er meira sem þarf að gera og við verðum að stíga upp og gera það,“ skrifar Zuckerberg.

Á ekki að geta endurtekið sig eftir breytingu á skilmálum

Gögnin sem Cambridge Analytica komst yfir komu frá snjallforriti Aleksandrs Kogan, rannsakanda við Cambridge-háskóla. Forrit með persónuleikaprófi sem hann þróaði árið 2013 safnaði ekki aðeins upplýsingum um 300.000 notendur þess heldur um alla Facebook-vini þeirra.

Á meðal þeirra aðgerða sem Zuckerberg boðar nú er rannsókn á snjallforritum sem hafa aðgang að miklu magni upplýsinga frá því áður en Facebook breytti skilmálum árið 2014 til þess að takmarka aðgang hugbúnaðarfyrirtækja að gögnum notenda. Zuckerberg segir að þær breytingar komi í veg fyrir að þróendur snjallforrita geti fengið sambærilegan aðgang að gögnum og Kogan fékk á sínum tíma.

Hann viðurkennir að Facebook hafi frétt af gagnasöfnun Kogan árið 2014 frá blaðamönnum The Guardian og að Kogan hafi deilt gögnunum með Cambridge Analytica. Forrit hans hafi þá verið bannað þar sem honum var ekki heimilt að deila gögnunum með öðrum án vitneskju notenda forritsins. Facebook hafi jafnframt krafist þess að gögnunum yrði eytt og hafi fengið staðfestingu frá Kogan og Cambridge Analytica.

Fyrirtækið hafi hins vegar ekki komist að því fyrr en The Guardian, New York Times og Channel 4 spurðust fyrir um það fyrir helgi að gögnunum hefði ekki verið eytt. Þá hafi Facebook þegar í stað lokað á aðgang þeirra að samfélagsmiðlinum.

Cambridge Analytica hafi samþykkt að láta fyrirtæki sem Facebook hefur ráðið ganga úr skugga um að gögnunum hafi nú verið eytt. Þá vinni Facebook með yfirvöldum að rannsókn.

„Ég byrjaði með Facebook og þegar öllu er á botninn hvoflt þá ber ég ábyrgð á því sem gerist á miðlinum. Mér er alvara um að gera það sem til þarf til að verja samfélagið okkar. Þrátt fyrir að þetta tiltekna vandamál með Cambridge Analytica ætti ekki að gera lengur í nýjum forritum þá breytir það ekki því sem gerðist. Við munum læra af þessari reynslu til að verja miðilinn frekar og að gera samfélagið okkar öruggara fyrir alla í framtíðinni,“ skrifar Zuckerberg.


Tengdar fréttir

Segir netið nýtt til sálfræðihernaðar gegn kjósendum

Þingmaður Pírata segir ríki heims hafa brugðist borgurum með allt of veikri persónu- og upplýsingaverndarlöggjöf. Hann segir sálfræðihernað hafa verið stundaðan gegn kjósendum á samfélagsmiðlum. Almannatengill segir ólíklegt að aðferðirnar myndu virka á Íslandi. Íslendingar séu fáir og hér þekki allir alla.

Sjálft viðskiptamódel Facebook í hættu

Í gær þurrkaðist út markaðsverðmæti Facebook í Nasdaq kauphöllinni vestanhafs sem nemur einni og hálfri landsframleiðslu Íslands. Sjóðstjóri sem hefur skoðað málið segir að fjárfestar hafi brugðist með kröftugum hætti við fréttum af nýtingu Cambridge Analytica á persónupplýsingum því sjálft viðskiptamódel Facebook sé í hættu.

Vilja rannsaka Cambridge Analytica

Stjórnvöld í Bretlandi hafa ákveðið að fara fram á leitarheimild til þess að rannsaka gagnagrunna og gagnaver fyrirtækisins Cambridge Analytica.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×