Enski boltinn

United fékk Pogba á tombóluverði að mati umbans

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba kostaði í raun ekki neitt.
Paul Pogba kostaði í raun ekki neitt. Vísir/Getty
Manchester United keypti franska miðjumanninn Paul Pogba frá Juventus fyrir hálfu öðru ári síðan og borgaði fyrir hann 89 milljónir punda eða rúmlega tólf milljarða íslenskra króna.

Þokkalegur verðmiði myndu flestir telja en það finnst Mino Raiola, umboðsmanni hans, ekki vera hátt verð fyrir leikmanninn. Hann er á því að Pogba hefði í raun átt að kosta 200 milljónir punda eða 28 milljarða króna.

„Á meðan sjónvarpsréttasamningarnir halda áfram að hækka eiga leikararnir rétt á að fá meira greitt,“ segir Raiola í viðtali við hollenska tímaritið Quote.

Pogba hefur stundum átt mjög erfitt uppdráttar hjá United og glímt við sinn skerf af meiðslum en tombóluverð var hann keyptur fyrir samkvæmt ítalska umbanum.

„Ég er ekki í því að hækka verðmiða upp úr öllu valdi. Þvert á móti átti Manchester United að borga 200 milljónir en ekki 100 milljónir punda fyrir Pogba,“ segir hann.

„Pogba vildi fara til United og leikmennirnir eiga alltaf að hafa valdið. Juventus hefði getað selt Pogba fyrir 200 milljónir punda til Real Madrid þannig að Manchester United sparaði sér í raun 100 milljónir punda,“ segir Mino Raiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×