Erlent

Tilbáðu hríðskotabyssur í fjöldabrúðkaupi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kona heldur á riffli við athöfnina í Pennsylvaníu í gær.
Kona heldur á riffli við athöfnina í Pennsylvaníu í gær. Vísir/AFP
Athöfn, sem haldin var á vegum umdeilds söfnuðar í Bandaríkjunum, hefur vakið mikla athygli eftir að myndir frá henni voru birtar í gær. Um er að ræða svokallaða „skuldbindingarathöfn“, hálfgert fjöldabrúðkaup, þar sem pör staðfestu tryggð sína hvort við annað og viðstaddir tilbáðu hríðskotariffla.

Leiðtogi söfnuðarins World Peace and Unification Sanctuary er Hyung Jin Moon, og stjórnaði hann athöfninni sem haldin var í Pennsylvaníu-ríki í gær. Moon er sonur hins kóreska Sun Myung Moon sem stofnaði Unification Church árið 1954. Er söfnuður sonarins stofnaður út frá Unification Church samkvæmt frétt AP um málið en Unification Church tengdist ekki viðburðinum í gær. 

Fjöldi fólks mætti með riffla á athöfnina í gær.Vísir/AFP
Pör innan safnaðarins voru hvött til þess að mæta með vopn sín við staðfestingarathöfnina í gær. Þá settu sumir upp kórónur búnar til úr skothylkjum.

Skólum í nágrenni athafnarinnar var lokað í gær og safnaðist auk þess nokkur fjöldi mótmælenda saman fyrir utan húsnæði söfnuðarins.

Rifflarnir eru af sömu gerð og árásarmaðurinn notaðist við í skotárásinni í Flórída í febrúar. Sautján létust í árásinni og hafa nemendur Marjory Stoneman Douglas-skólans, þar sem árásin var framin, barist ötullega fyrir hertri byssulöggjöf síðan.

Fréttin hefur verið uppfærð þar sem í fyrri útgáfu hennar var ekki farið rétt með um hvaða söfnuð í Bandaríkjunum væri að ræða. 

Vísir/AFP
Vísir/AFP

Tengdar fréttir

Trump hvetur þingmenn til að endurskoða skotvopnalög

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvatti þingmenn úr báðum flokkum til þess að endurskoða skotvopnalöggjöf Bandaríkjanna í kjölf mannskæðrar skotárásar í skóla Flórída þar sem 17 létust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×