Enski boltinn

Endurnýjun lífdaga Birkis hjá Aston Villa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Birkir fagnar marki sínu.
Birkir fagnar marki sínu. vísir/getty
„Byrjunin á upprisu Birkis Bjarnasonar hjá Aston Villa,“ er heiti greinar um feril Birkis í Englandi á stuðningsmannasíðunni Claret Villans sem birtist í dag.

Birkir var keyptur til Villa frá Basel fyrir ári síðan en meiðsli hafa sett strik í reikninginn og hefur hann ekki átt sjö dagana sæla undanfarna 12 mánuði.

Þrátt fyrir að hafa verið heill í nokkurn tíma hafa undanfarnir leikir einkennst af bekkjarsetu hjá landsliðsmanninum. Hann kom þó inn á í síðustu tveimur leikjum Villa og skoraði mark í stórsigri á Bristol á nýársdag.

„Þrátt fyrir að spila bara 20 mínútur þá náði hann loksins að skila góðri frammistöðu,“ segir Joel Rawlin í grein sinni.

„Það er of snemmt að segja til um það hvort þessi frammistaða hafi verið einsdæmi, en hún gæti verið örlagavaldur í endurlífgun ferils hans hjá Villa. Við höfum treyst of mikið á Conor Hourihane sem takmarkaði sóknarógnina, en leikmaður eins og Birki á miðjunni mun bæta leikstíl og sóknarógn okkar.“

„Hann hreyfir boltann hratt, á hlaup inn í teiginn og er eitthvað sem okkur hefur vantað, miðjumaður sem fer endanna á milli fullur af orku. Jafnvel þó hann sé takmarkaður við innkomur af bekknum, þá getur Birkir verið góður kostur í að breyta leiknum.“

Aston Villa mætir 2. deildar liði Peterborough í ensku bikarkeppninni á morgun og gæti vel verið að Birkir fái spilatíma þar sem Steve Bruce er talinn ætla að hvíla suma af lykilmönnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×