Kongómaðurinn Cedric Bakambu verður dýrasti afríski fótboltamaður heimsins þegar kínverska félagið Beijing Guoan kaupir hann frá spænska félaginu Villarreal. Það þýðir að methafarnir eru ekki lengur í Bítlaborginni.
Dýrustu Afríkumenn heims hafa hingað til spilað í búningi Liverpool en Kínverjarnir voru heldur betur tilbúnir að eyða í þennan 26 ára framherja.
Cedric Bakambu hefur skorað fjórtán mörk í öllum keppnum fyrir Villarreal á þessu tímabili en kínverska félagið nýtir sér klásúlu í samningnum sem gefur því möguleika á að kaupa upp samninginn. BBC segir frá.
Samtals mun Beijing Guoan borga 65 milljónir punda í heildina fyrir leikmanninn vegna ýmissa skattareglna í Kína en samingur Bakambu var falur fyrir 35,3 milljónir punda samkvæmt fyrrnefndu ákvæði.
Kínverjar hafa tekið upp skattareglu sem þýðir að félögin þeirra þurfa að borga félagsskiptaskatt kaupi þau leikmenn á meira en fimm milljónir punda. Við það hækkar kaupverðið talsvert þótt að stór hluti þess fari til skattstjórans í Kína.
Hingað til hafa dýrustu afrísku fótboltamennirnir spilað með liði Liverpool. Liverpool keypti bæði Egyptann Mo Salah og Senegalann Saido Mane báða á 34 milljónir punda. Liverpool mun kaupa Gvæjanamanninn Naby Keita á 48 milljónir punda frá RB Leipzig í sumar.

