Enski boltinn

Gylfi hjálpar strax Everton að komast yfir Liverpool á þessum lista

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ian Rush, Gylfi Þór Sigurðsson og Tony Cottee.
Ian Rush, Gylfi Þór Sigurðsson og Tony Cottee. Vísir/Samsett/Getty
Everton mun borga Swansea meira en 40 milljónir punda fyrir íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson og hann verður því orðinn dýrasti leikmaður félagsins frá upphafi.

Gylfi verður þó ekki aðeins dýrasti knattspyrnumaður Everton því hann verður einnig dýrasti knattspyrnumaður Bítlaborgarinnar frá upphafi. Liverpool Echo hefur þetta eftir hlaðvarpsmanninum Tony „Scotty“ Scott.

Dýrasti leikmaður Bítlaborgarinnar fyrir kaupin á Gylfa var Christian Benteke sem Liverpool keypti frá Aston Villa á 41,85 milljónir punda. Everton mun á endanum borga meira en það fyrir íslenska landsliðsmanninn samkvæmt heimildum íþróttadeildar 365.

Þetta verður því í fyrsta sinn frá árinu 1988 sem dýrasti leikmaður Everton kostar meira en dýrasti knattspyrnumaður nágrannanna í Liverpool.

Liverpool hefur verið ofar allt frá því að félagið borgaði ítalska félaginu Juventus 2,7 milljónir punda fyrir Ian Rush í ágúst 1988.   

Dýrasti leikmaður Everton var þá Tony Cottee sem félagið hafi keypt á 2,2 milljónir punda frá West Ham United í byrjun ágúst 1988.  Þegar Everton keypti Cottee var hann dýrasti leikmaður Bretlandseyja.

Það tók Liverpool aðeins tvær vikur að bæta það met og dýrasti leikmaður í sögu Liverpool hefur síðan þá alltaf kostað meira en dýrasti leikmaður Everton eða þar til núna. Gylfi var því fljótur að hjálpa Everton að komast yfir Liverpool á þeim lista.


Tengdar fréttir

„Ómögulegt að fylla skarð Gylfa“

Það er ómögulegt fyrir Swansea City að fylla skarð Gylfa Þórs Sigurðssonar. Þetta segir Ian Walsh, fyrrverandi leikmaður Swansea og velska landsliðsins.

Spilar í bláu allan ársins hring

Gylfi Þór Sigurðsson er við það að ganga í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Everton, eftir að félagið komst að samkomulagi við Swansea um kaupverð. Hann fer í læknisskoðun hjá Everton í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.