Enginn skortur er á vandamálum sem Trump glímir við þessa dagana. Í flestum tilvikum er þetta vandi sem hann kom sér í sjálfur.
Í fyrradag upplýsti Washington Post að Trump hefði greint Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands og Sergei Kislyak sendiherra Rússlands gagnvart Bandaríkjunum frá viðkvæmum öryggisleyndarmálum frá þriðja ríki á fundi í Hvíta húsinu í síðustu viku. Aðeins sólarhring eftir að hann rak James Comey sem forstjóra alríkislögreglunnar.
Flokksbræður Trump eru farnir að missa þolinmæðina. Lindsey Graham öldungardeildarþingmaður repúblikana í Suður-Karólínu sagði við bandaríska fjölmiðla í gær að forsetinn hefði nú tækifæri til að „hreinsa upp skítinn sem hann skóp að mestu sjálfur.“ Mitch McConnell leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni sagði að það væri gagnlegt ef það „væri minni drama í Hvíta húsinu.“
Demókratar í öldungadeildinni hafa þegar kallað eftir skýringum frá forsetanum og hafa óskað eftir útprentunum af samtölum sem Trump átti við Sergei Lavrov og Sergei Kislyak á fundinum í Hvíta húsinu miðvikudaginn 10. maí.
Í gærkvöldi greindi New York Times svo frá því að Trump hefði farið þess á leit við Comey í febrúar að alríkislögreglan léti af rannsókn á tengslum þjóðaröryggisráðgjafans Michael Flynn við Rússland. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Comey ritaði sjálfur.
Á lokuðum fundi á skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu mun Trump hafa sagt við Comey: „Ég vona að þú getir látið þetta niður falla.“
Trump er sakaður um að hafa hindrað framgang réttvísinnar með þessu.
Michael Flynn þurfti að segja af sér í febrúar eftir að í ljós kom að hann reyndi að hylma yfir að hann hefði átt í trúnaðarsamskiptum við Rússa um mál sem leynt áttu að fara.
Chris Murphy öldungardeildarþingmaður frá Connecticut skrifaði á Twitter í gærkvöldi eftir að frétt New York Times birtist: „Er að fara yfirgefa þingsalinn. Mjög mikið rætt hér bæði hjá demókrötum og repúblikönum um nákvæma skilgreiningu þess að hindra framgang réttvísinnar.“
Óvíst er að svo stöddu hvaða afleiðingar þetta mál mun hafa en ljóst er að því er hvergi nærri lokið fyrir Donald Trump.
Just leaving Senate floor. Lots of chatter from Ds and Rs about the exact definition of "obstruction of justice". https://t.co/zXj32i2x8b
— Chris Murphy (@ChrisMurphyCT) May 16, 2017