Richard Sherman, bakvörður Seattle Seathawks í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, sleit krossband í sigurleik liðsins gegn Arizona Cardinals í nótt.
Þetta er mikið áfall fyrir Seattle en Sherman hefur um nokkurra ára skeið verið einn allra besti varnarmaður deildarinnar.
Það er ákveðin kaldhæðni í því að Sherman meiðist í fimmtudagsleik en þessir aukaleikir á fimmtudögum sem NFL-deildin bætti við fyrir fjórum árum síðan eru ekki í uppáhaldi hjá leikmönnum. Þvert á móti.
Leikmönnum finnst það galið og algjör mótsögn hjá forráðamönnum deildarinnar að segjast alltaf vera að reyna að auka öryggi leikmanna en láta svo lið spila einu sinni á leiktíð á sunnudegi og strax aftur á fimmtudegi. Sportið er hart og þurfa menn meiri tíma til að jafna sig.
Sherman kallaði fimmtudagsleikina skítahátíð á fundi leikmannasamtakana á síðustu leiktíð en hann var ekki sá eini sem meiddist hjá Seattle í nótt. Nokkrir aðrir leikmenn urðu fyrir meiðslum og var Doug Baldwin, útherji Seattle, hvort þessi meiðsli væru sönnunargagn A í málinu gegn fimmtudagsleikjunum.
„Þetta er sönnunargagn A, sönnunargagn B, sönnunargagn C, sönnunargagn D og sönnunargagn Z. Fimmtudagsleikirnir eiga að vera ólöglegir,“ sagði Doug Baldwin.
„Fimmtudagsleikirnir eiga að vera ólöglegir“

Tengdar fréttir

Sjáðu eitt ótrúlegasta kast tímabilsins í NFL-deildinni
Russell Wilson er einn allra útsjónarsamasti leikstjórnandi síðari ára.