Erlent

Fulltrúar Trump ætla að tala upp jarðefnaeldsneyti á loftslagsfundi SÞ

Kjartan Kjartansson skrifar
Loftslagsfundur SÞ hefst í Bonn í Þýskalandi á mánudag og stendur yfir í um tvær vikur,.
Loftslagsfundur SÞ hefst í Bonn í Þýskalandi á mánudag og stendur yfir í um tvær vikur,. Vísir/AFP
Sendinefnd bandarískra stjórnvalda ætlar að kynna kol, jarðgas og kjarnorku sem lausn við loftslagsbreytingum á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi í næstu viku. Búist er við að sá málflutningur falli í grýttan jarðveg hjá fulltrúum annarra ríkja.               

New York Times segir að ríkisstjórn Donalds Trump leggi kynninguna upp sem umræðu um hvernig bandarískar orkuauðlindir, ekki síst jarðefnaeldsneyti, geti hjálpað fátækjum ríkjum að framleiða rafmagn og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Bruni manna á jarðefnaeldsneyti er hins vegar meginorsök loftslagsbreytinganna sem ríki heims reyna nú að takmarka. Því telur blaðið næsta víst að málflutningur Bandaríkjastjórnar muni vekja mikil viðbrögð.

„Lönd eða fyrirtæki sem halda áfram að hampa áframhaldandi leit og vinnslu á kolum og jafnvel öðru jarðefnaeldsneyti héðan í frá væru vísvitandi að fremja glæp gegn mannkyninu og þau yrðu látin bera ábyrgð á því,“ hefur New York Times eftir Saleemul Huq, forstöðumanni Alþjóðlegrar miðstöðvar loftslagsbreytinga og þróunar í Bangladess sem veitir þróunarríkjum ráðgjöf í tengslum við viðræðurnar.

Bandaríkin taka áfram þátt, þrátt fyrir yfirlýsingu Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann ætli að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu. Formlega getur hann hins vegar ekki gert það fyrr en haustið 2020 og í militíðinni taka Bandaríkin þátt í viðræðum á vettvangi loftslagssamningar SÞ.

Markmið Parísarsamkomulagsins eru til ársins 2030 og eiga að taka við af seinna tímabili Kýótóbókunarinnar sem lýkur árið 2020. Ríkja heims ætla samkvæmt þeim að reyna að halda hlýnun jarðar innan við 2°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu og helst innan við 1,5°C ef þess er nokkur kostur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×