Erlent

Dularfullur seladauði í dýpsta stöðuvatni heims

Atli Ísleifsson skrifar
Selirnir við Bajkalvatn, nerpa, eru einstakir á heimsvísu.
Selirnir við Bajkalvatn, nerpa, eru einstakir á heimsvísu. Vísir/Getty
Síðustu daga hefur alls 141 dauðan sel skolað á land við strendur Bajkalvatns í Rússlandi, dýpsta stöðuvatni heims.

Talsmaður rússneskra yfirvalda telur líklegast að selirnir hafi drepist vegna vannæringar sem rekja megi til stækkandi stofns sela við vatnið. Eiga hræ fyrstu selanna að hafa skolað á land um síðustu helgi.

Ekki hefur verið slegið föstu hvað hefur dregið selina til dauða, þó að búið sé að útiloka að um sjúkdóm sé að ræða. Fyrst og fremst hafi kvenselir, urtur, drepist og hefur verið eftir því tekið að enginn hatur hafi verið í maga þeirra.

Selum hefur fjölgað mikið við Bajkalvatn á síðustu árum eftir að veiðibanni var komið á 2009 til að vernda stofninn. Er áætlað að selirnir telji nú um 130 þúsund.

Selirnir við Bajkalvatn, nerpa, eru einstakir á heimsvísu, en þetta ku vera eina selategundin sem lifir einungis í ferskvatni.

Bajkalvatn er að finna nálægt landamærunum að Mongólíu, er 636 kílómetra langt og 1.642 metra djúpt. Um 20 prósent af feskvatni heims er að finna í vatninu og er þar að finna um 1.500 dýra- og plöntutegundir sem finnast ekki annars staðar í heiminum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.