Erlent

Trump heitir því að verja frelsið við upphaf Asíureisu

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump ávarpaði bandaríska og japanska hermenn í herstöð í Japan.
Trump ávarpaði bandaríska og japanska hermenn í herstöð í Japan. Vísir/AFP
Bandaríkin munu ekki leyfa „einræðisherrum“ að grafa undan staðfestu sinni. Þetta sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti við bandaríska og japanska hermenn í Japan við upphaf tæplega tveggja vikna ferðalags um Asíu. Hét hann því að verja frelsið.

Orð Trump vísuðu til Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, en undir stjórn hans hafa Norður-Kóreumenn gert ítrekaðar tilraunir með kjarnorkuvopn og eldflaugar. Trump hefur hótað því að gereyða landinu ógni það Bandaríkjunum eða bandalagsríkjum þeirra.

Bandaríkjaforseti hóf tólf daga ferðalag sitt í Japan í dag. Hann byrjaði á að hitta hundruð hermanna í Yokota-herstöðinni vestur af Tókýó og sagði þeim að ekki hefði farið vel fyrir ríkjum sem hefðu ögrað Bandaríkjunum.

„Enginn einræðisherra, engin stjórnvöld, engin þjóð ætti nokkru sinni að vanmeta staðfestu Bandaríkjanna. Stöku sinnum, í fortíðinni, hafa þau vanmetið okkur. Það var ekki mjög ánægjulegt fyrir þau, var það?“ sagði Trump við hermennina.

Trump lék golf með Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, og atvinnukylfingnum Hideki Matsuyama.Vísir/AFP
Býst við því að funda með Pútín

Reuters-fréttastofan segir að Trump ætli að leggja áherslu á við bandalagsríkin í Asíu að tíminn til að eiga við Norður-Kóreu sé að renna út.

„Við munum aldrei gefa eftir, aldrei láta undan og aldrei bregðast í að verja frelsi okkar,“ sagði Bandaríkjaforseti við hermennina.

Til stendur að Trump hitti Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í ferðinni. Opinber rannsókn stendur yfir á því hvort að forsetaframboð Trump hafi átt samráð við rússnesk stjórnvöld um að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra.

„Ég held að það það sé búist við því að við hittum Pútín, já. Við viljum hjálp Pútín með Norður-Kóreu og við munum hitta marga leiðtoga,“ sagði Trump við blaðamenn í forsetaflugvélinni á leiðinni til Japans, að sögn Politico.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×