Erlent

Lengsta Asíuför Bandaríkjaforseta í aldarfjórðung

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump og eiginkona hans Melaniu fengu blómsveiga um hálsinn við komuna til Havaí.
Trump og eiginkona hans Melaniu fengu blómsveiga um hálsinn við komuna til Havaí. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti er lagður af stað í tólf daga reisu til Asíu þar sem hann er sagður ætla að láta málefni Norður-Kóreu til sín taka. Þetta er lengsta ferðalag Bandaríkjaforseta um Asíu í tuttugu og fimm ár.

Á dagskrá Trump eru heimsóknir til Japans, Suður-Kóreu, Kína, Víetnam og Filippseyja. Búist er við því að hann taki sér stöðu með Suður-Kóreumönnum og Japönum gegn kjarnorku- og eldflaugatilraunum Norður-Kóreumanna og reyni að setja þrýsting á kínverska ráðamenn til að þeir taki harðar á stjórnvöldum í Pjongjang, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Trump hefur verið einkar herskár í yfirlýsingum sínum um Norður-Kóreu. Hann hefur meðal annars hótað landinu gjöreyðileggingu ógni stjórnvöld þar Bandaríkjunum eða bandamönnum þeirra.

Fyrsti áfangastaðurinn á ferð Trump var Havaí en þaðan flýgur hann til Japans og svo áfram til Suður-Kóreu. Washington Post segir að Trump hafi fengið blendnar móttökur á Havaí. Hundruð manna mótmæltu honum fyrir utan ríkisþinghúsið.

Á ferðalaginu mun Trump taka þátt í fundi Efnahagssamstarfs Asíu og Kyrrahafsins í Danang í Víetnam og ráðstefnu Suðaustur-Asíuríkja í Manila, höfuðborg Filippseyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×