Erlent

Google Maps færir sig út í sólkerfið með hjálp Íslendings

Kjartan Kjartansson skrifar
Örnefni á hnöttum eins og Plútó birtast þegar kort af þeim eru opnuð hjá Google. Ekki er þó hægt að slá nöfn hnattanna inn í leit Google Maps heldur eru þeir á sérsíðu.
Örnefni á hnöttum eins og Plútó birtast þegar kort af þeim eru opnuð hjá Google. Ekki er þó hægt að slá nöfn hnattanna inn í leit Google Maps heldur eru þeir á sérsíðu. Google

Reikistjörnur og tungl í sólkerfinu okkar eru nú aðgengileg í kortaþjónustu Google. Björn Jónsson, íslenskur áhugamaður, á heiðurinn á smíði korta af nokkrum hnöttum í sólkerfinu sem Google nýtir nú.



Alls er nú hægt að skoða sautján heima í sólkerfinu á sérstakri geimsíðu á kortavef Google. Þeirra á meðal eru bergreikistjörnurnar fjórar í innra sólkerfinu, tungl gasrisanna og dvergreikistjörnurnar Plútó og Ceres.



Með kortunum er hægt að þysja inn að Ólympusfjalli á Mars, hæsta fjalli sólkerfisins, skyggnast undir þykkan lofthjúp Títans, stærsta tungls Satúrnusar og þess eina í sólkerfinu sem er hjúpað andrúmslofti, og dást að sprunginni ísskorpu Evrópu, tungls Júpíters þar sem vísindamenn telja að víðáttumikið neðanjarðarhaf leynist.

Björn notaði myndir frá geimförunum Voyager 2 og Galileo til að setja saman nákvæmasta kortið sem til er af yfirborði ístunglsins Evrópu.NASA/JPL/​Björn Jóns­son

Í bloggfærslu Google eru Birni færðar sérstakar þakkir fyrir að hafa sett saman kort af tunglunum Evrópu, Ganýmedesi, Rheu og Mímasi úr myndum frá könnunarförum bandarísku og evrópsku geimvísindastofnannana NASA og ESA.



Björn er tölvunarfræðingur sem hefur nýtt frítíma sinn til að vinna myndir af hnöttum sólkerfisins sem könnunarför eins og Voyager og Juno hafa tekið. Hann hefur meðal annars smíðað sín eigin forrit til verksins.



NASA deildi meðal annars mynd Juno-geimfarsins af Stóra rauða bletti Júpíters sem Björn vann á samfélagsmiðlasíðum sínum í júlí.


Tengdar fréttir

Íslenskur tölvunarfræðingur vinnur einstakar myndir af Júpíter

Nýjar myndir frá bandaríska geimfarinu Juno af reikistjörnunni Júpíter hafa afhjúpað áður óséð landslag í lofthjúpi gasrisans. Það er ekki síst fólki eins og Birni Jónssyni tölvunarfræðingi að þakka. Björn tilheyrir samfélagi áhugamanna um allan heim sem nýta frítíma sinn til að vinna myndir frá geimförum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×