Dómstóll í Pakistan sem fjallar um spillingu gaf út ákæru á hendur Nawaz Sharif og dóttur hans í tengslum við ásakanir um eignir í London. Sharif á yfir höfði sér fangelsisdóm verði hann fundinn sekur.
Ásakanirnar um tengsl Sharif og fjölskyldur við aflandsreikninga og lúxuseignir erlendis urðu til þess að hæstiréttur landsins dæmdi í sumar að hann væri ekki hæfur til að gegna embætti forsætisráðherra. Sharif sagði af sér í kjölfarið en í frétt Reuters kemur fram að hann hafi enn tögl og hagldir í stjórnarflokknum Múslimabandalagi Pakistan.
Auk Sharif og dóttur hans er tengdasonur hans ákærður í málinu. Þau neita hins vegar öll sök.
Ljóstrað var upp um hagsmuni Sharif erlendis sem hann hafði ekki gefið upp þegar Panamaskjölin svonefndu urðu opinber í fyrra. Í þeim kom fram að börn Sharif ættu aflandsfélög skráð á Bresku Jómfrúareyjum sem þau notuðu til að kaupa lúxusíbúðir í London.
Rannsóknarnefnd á vegum hæstaréttarins hefur sakað systkinin um að skrifa undir fölsuð skjöl til að fela eignarhald á aflandsfélögunum sem voru notuð til að kaupa eignirnar í London.
Fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans ákærður fyrir spillingu

Tengdar fréttir

Forsætisráðherra Pakistans settur af með dómsvaldi
Nawaz Sharif hefur verið skipað að víkja úr stóli forsætisráðherra Pakistans af hæstarétti landsins. Upplýst var um aflandsfélög og lúxuseignir Sharif í Panamaskjölunum.

Pakistanska þingið greiðir atkvæði um nýjan forsætisráðherra
Fastlega er búist við að fyrrverandi olíumálaráðherrann Shahid Khaqan Abbasi verði skipaður forsætisráðherra. Er honum ætlað að gegna embættinu til bráðabirgða.

Hæstiréttur Pakistans segir sannanir ekki nægar
Hæstiréttur Pakistans hefur dæmt að ekki séu nægar sannanir til að svipta Nawaz Sharif embætti forsætisráðherra vegna meintrar spillingar.