Erlent

Fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans ákærður fyrir spillingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Sharif sagði af sér í sumar eftir dóm hæstaréttar um vanhæfni hans. Hann hefur nú verið ákærður.
Sharif sagði af sér í sumar eftir dóm hæstaréttar um vanhæfni hans. Hann hefur nú verið ákærður. Vísir/AFP
Dómstóll í Pakistan sem fjallar um spillingu gaf út ákæru á hendur Nawaz Sharif og dóttur hans í tengslum við ásakanir um eignir í London. Sharif á yfir höfði sér fangelsisdóm verði hann fundinn sekur.

Ásakanirnar um tengsl Sharif og fjölskyldur við aflandsreikninga og lúxuseignir erlendis urðu til þess að hæstiréttur landsins dæmdi í sumar að hann væri ekki hæfur til að gegna embætti forsætisráðherra. Sharif sagði af sér í kjölfarið en í frétt Reuters kemur fram að hann hafi enn tögl og hagldir í stjórnarflokknum Múslimabandalagi Pakistan.

Auk Sharif og dóttur hans er tengdasonur hans ákærður í málinu. Þau neita hins vegar öll sök.

Ljóstrað var upp um hagsmuni Sharif erlendis sem hann hafði ekki gefið upp þegar Panamaskjölin svonefndu urðu opinber í fyrra. Í þeim kom fram að börn Sharif ættu aflandsfélög skráð á Bresku Jómfrúareyjum sem þau notuðu til að kaupa lúxusíbúðir í London.

Rannsóknarnefnd á vegum hæstaréttarins hefur sakað systkinin um að skrifa undir fölsuð skjöl til að fela eignarhald á aflandsfélögunum sem voru notuð til að kaupa eignirnar í London.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×