Erlent

Forsætisráðherra Pakistans settur af með dómsvaldi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Sharif sagði af sér eftir úrskurð Hæstaréttar í dag.
Sharif sagði af sér eftir úrskurð Hæstaréttar í dag. Vísir/EPA
Hæstiréttur Pakistans úrskurðaði í morgun að forsætisráðherra landsins, Nawaz Sharif, skuli víkja úr embætti. Dómurinn komst að því að Sharif hafi farið á bakvið þing landsins og dómskerfi og sé því ekki hæfur til að stjórna landinu. Sharfi sagði af sér í kjölfarið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Dómararnir hafa undanfarin misseri verið að rannsaka meint tengsl Sharif við aflandsreikninga og lúxuseignir í útlöndum sem skráðar eru á þrjú barna hans. Reikningarnir komu í ljós í Panamaskjölunum svokölluðu árið 2015 og forsætisráðherrann hafði ekki gert grein fyrir þeim í fjárhagsyfirlýsingu þegar hann tók við embætti forsætisráðherra.

Þrátt fyrir að nafn Sharif komi ekki fyrir í Panamalekanum var fljótlega farið að tengja ákveðin fyrirtæki á listanum við ráðherrann og fjölskyldu hans og hafa verið haldin fjöldamótmæli í landinu þar sem þess er krafist að Sharif víki sökum spillingar. Þetta er í fyrsta sinn sem leiðtoga landsins er komið frá völdum með ákvörðun dómstóla. 

Þetta er hins vegar engan veginn í fyrsta sinn sem leiðtoga Pakistans er komið frá völdum með einum eða öðrum hætti. Sharif átti aðeins eitt ár eftir af kjörtímabili sínu og hefði hann náð að sitja það til enda hefði hann orðið fyrsti forsætisráðherrann í sögu landsins sem klárar kjörtímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×