Íslenski boltinn

Andri Rúnar: Hugurinn leitar út

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andri Rúnar jafnaði markamet efstu deildar þegar hann skoraði nítjánda mark sitt í deildinni í dag.
Andri Rúnar jafnaði markamet efstu deildar þegar hann skoraði nítjánda mark sitt í deildinni í dag. vísir/stefán

„Þetta er mikill léttir, mjög mikill. Það var komin ágætis pressa frá ykkur öllum og fínt að jafna þetta,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason eftir 2-1 sigur Grindavíkur á Fjölni þar sem hann jafnaði markamet efstu deildar með sínu nítjánda marki í Pepsi-deildinni í sumar.

Markið kom á 88.mínútu en Grindvíkingar höfðu alls ekki verið líklegir til að skora fram að því í síðari hálfleiknum.

„Ég var kominn með krampa þegar tuttugu mínútur voru eftir en ég var allan tímann bara að hugsa um að skora og það tókst.“

Andri Rúnar er þar með kominn í hóp með góðum mönnum. Pétur Pétursson, Guðmundur Torfason, Þórður Guðjónsson og Tryggvi Guðmundsson áttu markametið saman og nú bætist Andri Rúnar við. Hvernig líst honum á félagsskapinn?

„Það er geggjað. Gummi hringdi í mig áðan og ég spurði hvenær við færum út að borða saman strákarnir, vonandi verður það fljótlega,“ sagði Andri brosandi.

Andri Rúnar kom til Grindavíkur frá Víkingi fyrir tímabilið og sagði að Óli Stefán Flóventsson þjálfari og Milan Stefán Jankovic aðstoðarþjálfari Grindavíkur eigi stóran þátt í hans velgengni.

„Ég held að mörkin tali sínu máli. Það er magnað afrek, þó ég segi sjálfur frá, að ná í nitján mörk. Óli er geggjaður þjálfari og hann og Janko gerðu mig að miklu betri leikmanni heldur en ég var.“

Andri Rúnar er samningslaus eftir tímabilið en sagði ekkert komið á hreint hvað gerist eftir 15.október þegar samningur hans rennur út.

„Ég er með menn sem eru að hjálpa mér í þessu. Hugurinn leitar út og vonandi gengur það eftir,“ sagði Andri Rúnar en hann sagði ekkert ákveðið hvort hann yrði áfram í Grindavík ef hann myndi spila á Íslandi.

„Ég veit það ekki, það eina sem ég veit að ef ég verð áfram þá skora ég 20 mörk á næsta ári.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.