Bandarískar sprengju-og orrustuþotur hafa aldrei á 21. öldinni flogið norðar meðfram austurströnd Norður-Kóreu en gert var í dag. Tilgangurinn var að sýna fram á þau miklu hernaðarúrræði sem Bandaríkjamenn hefðu yfir að ráða og jafnframt að þeir gætu mætt hvaða ógn sem væri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pentagon, varnarmálastofnun Bandaríkjanna.
Þoturnar eru, sem fyrr segir, sagðar hafa flogið norðar meðfram hlutlausu belti austurstrandar Norður-Kóreu en gert hefur verið á þessari öld að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC.
Þetta er nýjasta útspil Bandaríkjanna í afar viðkvæmum deilum landanna á milli þar sem öryggi fjölda fólks er í húfi. Spennan á milli þjóðhöfðingjanna Donalds Trumps og Kims Jong-un stigmagnast með hverjum deginum en þeir hafa haft í hótunum um að gereyðileggja ríki hvors annars.
Síðast gerðu Norður-Kóreumenn kjarnavopnatilraun þann þriðja september og var þar um að ræða langöflugasta kjarnavopn sem ríkið hefur gert tilraunir með hingað til.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, brást í gær við nýjum viðskiptaþvingunum sem Trump fyrirskipaði gegn einræðisríkinu á fimmtudag sem og eldræðu forsetans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna frá því á mánudag þar sem forsetinn hótaði fyrrnefndri gereyðileggingu ef Kim-stjórnin myndi ekki stöðva kjarnorkuáætlun sína.Kim Jong-un ráðlagði Trump að vanda orðaval sitt og sagði hegðun hans á allsherjarþinginu „geðsjúka“. Ræða Trumps hefði í raun verið stríðsyfirlýsing og myndi stjórn Kims hugsa vandlega um hvernig henni bæri að svara.
Togstreitan eykst á Kóreuskaga

Tengdar fréttir

Jarðskjálfti mælist nálægt kjarnorkutilraunasvæði Norður-Kóreu
Jarðskjálfti að stærðinni 3,4 mældist í dag í Norður Kóreu.

Segir Trump og Kim Jong-un haga sér eins og leikskólabörn
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að líkja megi orðaskaki Donald Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu við slagsmál leikskólabarna

Trump geltandi hundur í augum Norður-Kóreu
Utanríkirsáðherra Norður-Kóreu vorkennir aðstoðarmönnum Bandaríkjaforseta.