Erlent

Heilbrigðiskerfi Púertó Ríkó í lamasessi eftir Maríu

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar í San Juan og víða hafa þurft að bíða í röð í margar klukkustundir eftir að fá eldsneyti.
Íbúar í San Juan og víða hafa þurft að bíða í röð í margar klukkustundir eftir að fá eldsneyti. Vísir/EPA

Sjúkrahús á Púertó Ríkó eru á kafi í vatni og þurfa að reiða sig á olíuvararafstöðvar til að halda lífi í sjúklingunum sem eru verst haldnir þar eftir að fellibylurinn María gekk yfir eyjuna í síðustu viku.

Suma sjúklinga hefur þurft að flytja til Bandaríkjanna vegna þess að læknar hafa ekki geta sinnt þeim sem skyldi við þær aðstæður sem uppi eru á Púertó Ríkó, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Mannúðarástand er í uppsiglingu á eyjunni en María olli gríðarlegri eyðileggingu á eyríkinu sem heyrir undir Bandaríkin.

Matvæli og eldsneyti eru af skornum skammti og raforkukerfið liggur niðri, hugsanlega í einhverja mánuði áfram. Þá er farsíma- og internetsamband nánast horfið. Útvarpið er nú orðið aðalupplýsingaveita 3,4 milljóna íbúa Púertó Ríkó.

Margra klukkustunda langar raðir hafa myndast við bensínstöðvar. Washington Post segir að það muni taka vikur og mánuði en ekki daga að koma rafmagni og annarri nauðsynlegri þjónustu aftur í gagnið.

Neyðargögnum dreift af trukki. Skemmdir á innviðum Púertó Ríkó hafa torveldað flutning á þeim. Vísir/EPA

Geta ekki tekið við þungt höldnum sjúklingum
Ástandið á sumum sjúkrahúsum er svart. Varaaflstöðvar hafa brugðist sums staðar en annars staðar eru þær keyrðar á síðustu olíudropunum. Vopnaðir verðir hafa fylgt sendingum af olíu til að verja þær fyrir ræningjum.

„Annað sjúkrahús vill flytja tvo sjúklinga í alvarlegu ástandi hingað vegna þess að það er rafmagnslaust. Við getum ekki tekið við þeim. Við erum með sama vandamál,“ segir Iván González Cancel, hjarta- og æðaskurðlæknir við Hjarta- og æðasjúkdómamiðstöð landsins við Reuters.

Erfitt hefur reynst að koma neyðargögnum til Púertó Ríkó og yfirráðasvæðis Bandaríkjanna á Jómfrúareyjum. Hafnir og flugvellir þar urðu fyrir verulegum skemmdum í fellibylnum sem var sá öflugasti þar í fleiri áratugi.

Þúsundir íbúðarhúsa urðu fyrir skemmdum í hamförunum og grænir skógar eyjunnar hafa verið jafnaðir við jörðu. Sum þorp í fjalllendum innsveitum eru nánast einangruð frá umheiminum vegna skemmda á samgöngu- og fjarskiptakerfunum.

„Ég átti fallegt þorp. Í dag á ég eyðimörk,“ hefur Washington Post eftir Alfredo Alejandro, bæjarstjóra í bænum Juncos í miðjum austurhluta eyjunnar.


Tengdar fréttir

Rafmagnslaust næstu mánuði

Rafveitunet Púertó Ríkó laskaðist svo mikið eftir að fellibylurinn María gekk þar yfir að eyjaskeggjar mega gera ráð fyrir rafmagnsleysi næstu mánuðiAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.