Enski boltinn

Koeman segir Gylfa og félaga hrædda við að spila fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson var heldur ekki sáttur.
Gylfi Þór Sigurðsson var heldur ekki sáttur. Vísir/Getty
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, var ekki sáttur með sína menn eftir 2-2 jafntefli á móti Apollon Limassol í Evrópudeildinni í gærkvöldi.

Gylfi Þór Sigurðsson virtist hafa lagt upp sigurmark Everton þegar liðið var 2-1 yfir þegar skammt var eftir og lið Apollon Limassol hafði misst mann af velli.

Tíu leikmenn  Apollon Limassol náðu hinsvegar að jafna leikinn og Everton er því í neðsta sæti riðilsins eftir tvær umferðir.

„Tilfinningin er eins og við höfum tapað þessum leik en ekki gert jafntefli. Þetta eru mikil vinbrigði. Við byrjuðum illa og með ekkert sjálfstraust. Leikmenn gerðu mikið af mistökum en seinni hálfleikurinn var mun betri,“ sagði Ronald Koeman við BBC.

„Við stjórnuðum leiknum í seinni hálfleik og fengum þá frábær færi til að skora þriðja markið. Svona er fótboltinn en stundum þegar gengur illa þá ertu hræddur við að spila fótbolta. Það er erfitt þegar þú ert ekki með mikið sjálfstraust,“ saðgi Koeman.

Gylfi skapaði þrjú færi fyrir Everton í leiknum og gaf líka sína fyrstu stoðsendingu á tímabilinu.



„Ég get ekki sagt að mínir menn séu ekki að hlaupa eða að berjast. Þeir eru hinsvegar hræddir við að spila boltanum fram á við. Sigur í kvöld hefði breytt miklu,“ sagði Koeman.

Gylfi var á forsíðu leikskrárinnar fyrir leikinn en því miður gat íslenski landsliðsmaðurinn ekki haldið upp á það með sigri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×