Enski boltinn

Moneyball til Jórvíkurskíris

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Billy Beane var framkvæmdastjóri Oakland Athletics í 18 ár.
Billy Beane var framkvæmdastjóri Oakland Athletics í 18 ár. vísir/getty

Hafnaboltagoðsögnin Billy Beane, sem Brad Pitt lék í kvikmyndinni Moneyball, er hluti af hópi sem ætlar að kaupa enska B-deildarliðið Barnsley. Daily Mail greinir frá.

Hópurinn, sem Beane er hluti af, er skipaður bandarískum og kínverskum fjárfestum sem munu kaupa 98,5% hlut í Barnsley fyrir 20 milljónir punda.

Beane var framkvæmdastjóri Oakland Athletics í bandarísku hafnaboltadeildinni á árunum 1998-2016. Í dag er hann minnihlutaeigandi í félaginu.

Beane beitti byltingarkenndum aðferðum hjá Oakland, þegar hann mat leikmenn út frá tölfræði með góðum árangri. Eftir góðan árangur Oakland tímabilið 2001-02, þar sem liðið vann m.a. 20 leiki í röð, fékk Beane risa tilboð frá Boston Red Sox um að gerast framkvæmdastjóri félagsins en hafnaði því.

Tímabilinu 2001-02 hjá Oakland voru gerð skil í kvikmyndinni Moneyball sem var frumsýnd árið 2011. Myndin var tilnefnd til nokkurra Óskarsverðlauna. Pitt fékk m.a. tilnefningu sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Beane.

Hinn 55 ára gamli Beane er mikill fótboltaáhugamaður og var ráðinn til AZ Alkmaar sem ráðgjafi fyrir tveimur árum.

Barnsley situr í 15. sæti ensku B-deildarinnar eftir sex umferðir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.