Enski boltinn

Moneyball til Jórvíkurskíris

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Billy Beane var framkvæmdastjóri Oakland Athletics í 18 ár.
Billy Beane var framkvæmdastjóri Oakland Athletics í 18 ár. vísir/getty
Hafnaboltagoðsögnin Billy Beane, sem Brad Pitt lék í kvikmyndinni Moneyball, er hluti af hópi sem ætlar að kaupa enska B-deildarliðið Barnsley. Daily Mail greinir frá.

Hópurinn, sem Beane er hluti af, er skipaður bandarískum og kínverskum fjárfestum sem munu kaupa 98,5% hlut í Barnsley fyrir 20 milljónir punda.

Beane var framkvæmdastjóri Oakland Athletics í bandarísku hafnaboltadeildinni á árunum 1998-2016. Í dag er hann minnihlutaeigandi í félaginu.

Beane beitti byltingarkenndum aðferðum hjá Oakland, þegar hann mat leikmenn út frá tölfræði með góðum árangri. Eftir góðan árangur Oakland tímabilið 2001-02, þar sem liðið vann m.a. 20 leiki í röð, fékk Beane risa tilboð frá Boston Red Sox um að gerast framkvæmdastjóri félagsins en hafnaði því.

Tímabilinu 2001-02 hjá Oakland voru gerð skil í kvikmyndinni Moneyball sem var frumsýnd árið 2011. Myndin var tilnefnd til nokkurra Óskarsverðlauna. Pitt fékk m.a. tilnefningu sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Beane.

Hinn 55 ára gamli Beane er mikill fótboltaáhugamaður og var ráðinn til AZ Alkmaar sem ráðgjafi fyrir tveimur árum.

Barnsley situr í 15. sæti ensku B-deildarinnar eftir sex umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×