Erlent

Langöflugasta sprengjan hingað til

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu mun eflaust birtast á sjónvarpsskjám víða um heim í dag. Kjarnorkutilraunir ríkisins hafa verið fordæmdar af alþjóðsamfélaginu
Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu mun eflaust birtast á sjónvarpsskjám víða um heim í dag. Kjarnorkutilraunir ríkisins hafa verið fordæmdar af alþjóðsamfélaginu Vísir/EPA
Vetnissprengjan sem Norður-Kóreumenn sprengdu í nótt var um það bil tíu sinnum öflugri en nokkuð annað kjarnorkuvopn sem ríkið hefur gert tilraunir með. Þetta er mat norsku rannsóknarstofnunarinnar NORSAR sem rannsakar meðal annars jarðskjálfta- og kjarnorkuvirkni.

Talið er að stærð sprengjunnar hafi verið um 120 kílótonn, sem er margfalt stærra en nokkur önnur tilraun ríkisins. Til samanburðar gerði ríkið tilraun í september í fyrra. Sú sprengja var 10 kílótonn að stærð. 

Uppfært 10:29: 

Starfsmaður Veðurstofu Kóreu segir í samtali við CNN að sprengjan hafi verið 50 kílótonn að stærð, en ekki 120 eins og norska stofnunin NORSAR hafði áður gert ráð fyrir.

Í grein á Vísindavefnum segir að eitt kílótonn jafngildi sprengikrafti 1.000 tonna af hefðbundna sprengiefninu TNT.

„Eitt kílótonn er sú orka sem losnar við fullkomna klofnun á 56 g af kjarnkleyfu efni. Eitt megatonn (MT) jafngildir sprengikrafti milljón tonna af TNT,“ segir á Vísindavefnum.

Ri Chun Hee flutti fréttir af sprengingunni í ríkismiðlinum KCNA í morgun.Vísir/EPA

Einangra Norður-Kóreu

Tilraunin „gekk fullkomlega upp“ og er síðasta skrefið í uppbyggingu kjarnorkustyrks ríkisins. Þetta voru orð fréttaþularins Ri Chun Hee sem tilkynnti um tilraunina í ríkismiðlinum KCNA. Sprengingunni fylgdi jarðskjálfti sem mældist 6,3 að stærð og fannst hann víða í norðausturhluta Kína.

Chun Eu-yong, aðalráðgjafi forseta Suður-Kóreu segir að ríkið muni nýta öll þau úrræði sem standi þeim til boða til að einangra Norður-Kóreu algjörlega. 

„Norður-Kórea hefur hunsað ítrekaðar viðvaranir okkar og alþjóðasamfélagsins og framkvæmt öflugari kjarnavopnatilraun en nokkurn tíman áður,“ sagði hann í viðtali við fjölmiðla

Þá hafa yfirvöld í Kína einnig fordæmt tilraunina harðlega sem og yfirvöld í Japan. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa enn ekki tjáð sig um nýjustu tilraun Norður-Kóreumanna en búast má því að Donald Trump Bandaríkjaforseti taki fréttunum illa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×