Erlent

Kalt stríð sagt ríkja á milli Trump og McConnell

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mitch McConnell hefur verið leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings frá árinu 2007. Í minnihluta fyrstu átta árin en í meirihluta síðan í janúar 2015.
Mitch McConnell hefur verið leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings frá árinu 2007. Í minnihluta fyrstu átta árin en í meirihluta síðan í janúar 2015. Vísir/Getty
Samband Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og Mitch McConnell, leiðtoga Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, er sagt vera komið á það stig að þeir hafi ekki talast við vikum saman. McConnell er sagður hafa efasemdir um að Donald Trump muni geta bjargað forsetatíð hans eftir erfitt sumar.

Þetta kemur fram í ítarlegri frétt New York Times þar sem kalt stríð er sagt ríkja á milli Trump og McConnell eftir að sá fyrrnefndi gagnrýndi þann síðarnefnda í röð tísta fyrr í mánuðinum. Stirðleiki í samskiptum þeirra á milli er sagður hafa náð hámarki eftir að þeir töluðust við í síma þann 9. ágúst síðastliðinn.

Skammaði McConnell

Trump hringdi þá í McConnell og sakaði hann um að hafa klúðrað umdeildu heilbrigðisfrumvarpi sem náði ekki í gegnum Bandaríkjaþing. Þá er hann einnig sagður hafa skammað McConnell fyrir að hafa ekki komið sér til varnar vegna rannsóknar Bandaríkjaþings á afskiptum Rússa af forsetakosningunum á síðasta ári, að því er heimildarmenn New York Times innan raða Repúblikanaflokksins herma.

Eru þeir sagðir hafa öskrað á hvern annan á meðan á símtalinu stóð en McConnell, ásamt fleiri þingmönnum Repúblikana, virðast vera orðnir þreyttir á gagnrýni Trump á samflokksmenn hans. Er McConnell sagður hafa alvarlegar efasemdur um hvort að Trump geti leitt flokkinn í gegnum næstu þingkosningar sem fram fara á næsta ári.

Trump hefur átt undir högg að sækja að undanförnu, ekki síst eftir harða gagnrýni á viðbrögð hans við ofbeldi í tengslum við samkomu hvítra þjóðernissinna í Charlottesville á dögunum.


Tengdar fréttir

Lítið sem ekkert gert til að græða sár Repúblikana

Gjáin á milli Bandaríkjaforseta og samflokksmanna hans heldur áfram að breikka. Repúblikanar reiðast forsetanum fyrir að segja að öfgaþjóðernissinnar beri ekki fulla ábyrgð á óeirðunum í Charlottesville.

Repúblikanar andæfa fordómum og Trump forseta

Margir háttsettir repúblikanar hafa gagnrýnt furðuleg ummæli Donalds Trump forseta um óeirðirnar í Charlottesville í gær. Helstu leiðtogar þeirra hafa þó hikað við að beina spjótum sínum beint að forsetanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×