Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - ÍA 2-0 | Blikar gæla við Evrópusæti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. vísir/andri
Breiðablik vann sinn annan sigur í röð í Pepsi-deild karla þegar liðið bar sigurorð af botnliði ÍA á Kópavogsvelli í kvöld. Lokatölur 2-0, Breiðabliki í vil. Þetta var aðeins þriðji sigur Blika á heimavelli í sumar.

Blikar voru miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu 1-0 að honum loknum. Markið skoraði Skagamaðurinn Gylfi Veigar Gylfason þegar hann setti boltann í eigið mark.

Breiðablik tók fótinn af bensíngjöfinni í seinni hálfleik og hleypti ÍA, sem var að spila sinn fyrsta leik undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar, inn í leikinn.

Blikar gáfu hins vegar aftur í undir lokin og Aron Bjarnason innsiglaði sigurinn fjórum mínútum fyrir leikslok. Aron hefur nú skorað í þremur leikjum í röð.

Með sigrinum komust Blikar upp í 6. sæti deildarinnar. Skagamenn eru hins vegar áfram á botninum með sín 10 stig, níu stigum frá öruggu sæti.

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar voru með öll völd á vellinum í fyrri hálfleik, létu boltann ganga vel og Skagamenn voru í eltingarleik. Þeir sváfu svo all svakalega á verðinum á 21. mínútu þegar heimamenn komust yfir.

Það var ekki sami kraftur í spilamennsku Blika í seinni hálfleik og meðan staðan var 1-0 voru Skagamenn vel inni í leiknum. Þeir ógnuðu þó marki Breiðabliks afar sjaldan.

Akurnesingar reyndu þó hvað þeir gátu og fjölguðu í sókninni. Við það opnuðust svæði fyrir Blika til að sækja í og það nýttu þeir sér til að skora annað markið og klára leikinn.

Þessir stóðu upp úr:

Aron var mjög líflegur í framlínu Breiðabliks. Hann átti sendinguna sem bjó fyrra markið til og skoraði það seinna sjálfur. Aron er sjóðheitur þessa dagana og hefur skorað þrjú mörk og gefið tvær stoðsendingar í síðustu þremur leikjum Blika.

Willum Þór Willumsson var í byrjunarliðinu í öðrum leiknum í röð og átti flottan leik inni á miðjunni hjá Breiðabliki. Blikavörnin var einnig traust.

Hvað gekk illa?

Skagamenn báru öll merki liðs sem er með lítið sjálfstraust. Þeim gekk illa að halda boltanum og sóknaraðgerðir þeirra voru ómarkvissar. Akurnesingar gáfust þó ekki og reyndu allt til loka. Það var hins vegar ekki nóg.

Blikar voru sem áður sagði góðir í fyrri hálfleik en frammistaðan í þeim seinni var ekki upp á marga fiska. Þeir gerðu nóg til að vinna en ekkert mikið meira en það.

Hvað gerist næst?

Nú tekur við tveggja vikna landsleikjahlé. Að því loknu sækja Blikar Valsmenn heim áður en þeir fá KR-inga í heimsókn.

Skagamenn taka á móti KA-mönnum í næstu umferð og verða að vinna þann leik til að eiga einhverja von um að halda sæti sínu í Pepsi-deildinni.

Maður leiksins: Aron Bjarnason, Breiðabliki

Einkunnir má sjá með því að smella á flipann Liðin hér fyrir ofan

Milos: Heilt yfir ánægður með spilamennsku Willums

Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, sagði að sínir menn hefðu þurft að hafa mikið fyrir sigrinum á ÍA í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur og ekki þægilegur að spila. Við reyndum að brjóta þá niður með því að setja annað mark en það gekk ekki,“ sagði Milos eftir leik.

„Engu að síður fengum við fullt af færum til að skora og áttum jafnvel að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. En þeir eru með betra lið en taflan segir og ég vissi að þetta myndi verða erfitt, sérstaklega í ljósi þjálfarabreytinganna. Það kemur alltaf smá mótspyrna frá strákunum þegar svona gerist.“

Blikar voru mun betri aðilinn í fyrri hálfleiknum en slökuðu á klónni í þeim seinni.

„Það var algjör óþarfi. Við áttum alltof margar feilsendingar og náðum ekki að halda boltanum og stjórna leiknum eins og við gerðum í fyrri hálfleik. En strákarnir unnu vel fyrir sigrinum,“ sagði Milos.

Willum Þór Willumsson hélt sæti sínu í byrjunarliði Breiðabliks frá 0-3 sigrinum í Ólafsvík í síðustu umferð og stóð fyrir sínu inni á miðju Blika.

„Þetta er þriðji leikurinn hans á sjö dögum. Mér fannst hann mjög góður í svona 60 mínútur. Svo vantaði aðeins orku í hann sem er eðlilegt. Heilt yfir var ég ánægður með hans spilamennsku,“ sagði Milos.

Með sigrinum komst Breiðablik upp í 6. sæti deildarinnar og það glittir í Evrópusæti.

„Frá fyrsta degi hef ég sagt að það væri fínt að skila liðinu í topp fimm. Ef tækifæri gefst fyrir eitthvað annað erum við tilbúnir að taka því en nú hugsum við um að hvíla okkur og einbeita okkar að Val,“ sagði Milos að lokum.

Jón Þór: Þurfum að lyfta hlutunum upp á annað plan

Jón Þór Hauksson stýrði ÍA í fyrsta sinn þegar liðið tapaði 2-0 fyrir Breiðabliki í Kópavoginum í kvöld.

„Frammistaðan var kaflaskipt. Það hefur verið lítið sjálfstraust í liðinu undanfarið og við vorum að bæta öflugu Blikaliði. Við áttum því í basli á köflum í þessum leik,“ sagði Jón Þór eftir leik.

„En ég er fyrst og fremst gríðarlega ánægður með leikmennina. Eftir að við fengum á okkur fyrsta markið fórum við strax í pressu hinum megin og komumst skömmu síðar í ágætis færi.“

Skagamenn voru í vandræðum í fyrri hálfleik en óx ásmegin eftir því sem leið á leikinn.

„Í seinni hálfleik náðum við að pressa á þá og liðið sýndi að það vildi ná í úrslit í þessum leik. Við settum liðið fram og þá má búast við því að það opnist aðeins hinum megin. En við tókum áhættuna á því og menn héldu allan tímann áfram. Ég er stoltur og ánægður að sjá menn bregðast þannig við,“ sagði Jón Þór.

Nú tekur við tveggja vikna landsleikjafrí sem Jón Þór segir að Skagamenn verði að nýta vel, enda staða þeirra í Pepsi-deildinni afar erfið.

„Við þurfum að halda áfram okkar striki og bæta litlu hlutina. Við þurfum að lyfta hlutunum upp á annað plan og við höfum tvær vikur í það. Ég hlakka til næsta leiks og veit að strákarnir gera það líka,“ sagði Jón Þór að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.