Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu segja að her landsins sé að leggja lokahönd á áætlun um að skjóta fjórum eldflaugum að Kyrrahafseyjunni Gvam þar sem Bandaríkjamenn eru með herstöðvar. Áætlunin verði send til Kim Jong-un um miðjan mánuðinn.
Samkvæmt áætluninni verður fjórum Hwasong-12-eldflaugum skotið frá Norður-Kóreu, yfir Japan og þær látnar lenda í hafinu 30-40 kílómetrum undan ströndum Gvam, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir íslensk stjórnvöld fylgjast vel með þróun mála.

Orð forsetans túlkuð sem hótun
Orð Trump um að hann muni mæta Norður-Kóreumönnum með „eld og brennisteini“ á þeirri stærðargráðu sem jarðarbúar hafi aldrei séð áður láti þeir ekki af hótunum í garð Bandaríkjanna hafa verið túlkuð sem hótun um að beita kjarnavopnum en í gær sagði Trump ennfremur á Twitter síðu sinni að kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna væri öflugra en nokkru sinni fyrr.Guðlaugur Þór segir kollega sinn í Bandaríkjunum, Rex Tillerson, leggja allt sitt að mörkum til að lægja öldurnar í deilunni.
Hwasong-12 eldflaugarnar í vopnabúri Norður Kóreu eru taldar hafa drægni upp á 10 þúsund kílómetra og öll Evrópa innan þeirrar drægni. Ljóst er hinsvegar að Ísland er hvergi nærri á meðal skotmarka Norður Kóreu.
„Þó við teljum að okkur stafi ekki bein ógn af þessu þá breytir það ekki því að ef það myndi brjótast út einhver átök á þessu svæði þá hefði það áhrif á alla heimsbyggðina.“