Erlent

Íbúar Gvam áhyggjufullir vegna Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 163 þúsund manns búa á Gvam.
Um 163 þúsund manns búa á Gvam. Vísir/AFP
Íbúar Kyrrahafseyjunnar Gvam segjast óttaslegnir vegna mikillar spennu á milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Hernaðaryfirvöld Norður-Kóreu tilkynnti í gær að verið væri að íhuga eldflaugaárásir á Gvam. Íbúar eyjunnar litlu eru um 163 þúsund og eru þau bandarískir ríkisborgarar og þar halda Bandaríkin út nokkrum herstöðvum.

AP fréttaveitan ræddi við nokkra íbúa sem segjast vanir hótunum frá Norður-Kóreu. Hins vegar hafi fregnir af mikilli framþróun í eldflauga- og kjarnorkuvopnaáætlunum Norður-Kóreu vakið upp áhyggjur íbúa.

Í gær bárust fregnir af því að Norður-Kóreumönnum hefði mögulega tekist að þróa og framleiða kjarnorkuvopn sem hægt væri að koma fyrir í langdrægri eldflaug. Í kjölfar þess sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að öllum ógnunum Norður-Kóreu yrði mætt með „eldi og heift“.

Norður-Kórea brást við þeirri yfirlýsingu með því að ógna Gvam.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því svo yfir í dag að ekki væri tilefni til að hafa áhyggjur. Ekkert sem hann hefði séð benti til þess að aðstæður hefðu breyst verulega.

Þá sagði Trump á Twitter í dag að hans fyrsta skipun sem forseti hefði verið að nútímavæða kjarnorkuvopn Bandaríkjanna. Nú væru þau mun öflugri en nokkurn tímann áður.

Trump hefur þó einungis verið forseti í sjö mánuði og tilskipun hans var ekki um að nútímavæða vopnin, heldur skipaði hann til að farið yrði yfir kerfið og það grandskoðað. Fyrri ríkisstjórn Bandaríkjanna og þingið varði miklum fjármunum í að betrumbæta kjarnorkuvopn ríkisins.

Ríkisstjóri Gvam sendi frá sér tilkynningu í morgun, þar sem hann sagði íbúa ekki þurfa að hafa áhyggjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×