Enski boltinn

Léttur sigur Manchester City á Tottenham Hotspur í Bandaríkjunum

Elías Orri Njarðarson skrifar
Kyle Walker var frábær í leiknum í kvöld á móti sínum gömlu félögumvisir/getty
Manchester City vann Tottenham Hotspur, 3-0, í ICC bikarnum í Tennesee í Bandaríkjunum í kvöld.

Bæði lið stilltu upp sterkum byrjunarliðum en Kyle Walker, einn af nýju leikmönnum City, mætti sínum gömlu félögum í kvöld.

Tottenham stillti upp í þriggja manna vörn og byrjaðu þeir leikinn af krafti og á fyrstu mínútum var eins og að leikmenn Manchester City væru ekki mættir á völlinn. En það átti heldur betur eftir að breytast.

Á 9. mínútu fengu Manchester City aukaspyrnu sem Kevin de Bruyne tók og hann spyrnti boltanum beint á höfuðið á John Stones, varnarmann City, sem skallaði boltann í marki. City komnir 1-0 yfir og leikmenn Tottenham voru slegnir af laginu.

Strax eftir markið lá lið City á Tottenham og þeir ljósbláu svoleiðis óðu í færum. Mikil harka var í leiknum en dómari leiksins var ekki mikið fyrir að vera að blása í flautuna, sem pirraði leikmenn beggja liða. Þriggja manna varnarlína Tottenham var eins og gatasigti í leiknum en leikmenn City áttu í engum vandræðum með að finna leiðir í gegnum vörn Lundúnarliðsins.

Harry Kane fékk frábært færi til þess að jafna metin rétt undir lok fyrri hálfleiks en skot hans fór hátt yfir eftir að enski framherjinn hafði sloppið í gegnum vörn City.

Manchester City fór með 1-0 forskot inn í síðari hálfleikinn en ótrúlegt var að þeir ljósbláklæddu voru ekki að vinna leikinn með allavega þriggja marka forskoti.

Síðari hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri endaði, Manchester City sóttu á þriggja manna vörn Tottenham - sem var í molum.

Sergio Aguero kom inn á í seinni hálfleiknum ásamt fleiri stórstjörnum sem sátu á varamannabekk City eftir 60. mínútna leik.

Argentíski framherjinn var ekki lengi að koma sér í færi en rúmlega einni mínútu eftir að hann kom inn á, fékk hann frábæra fyrirgjöf frá Raheem Sterling en skallaði boltann rétt yfir.

Aguero var svo aftur á ferðinni þegar að hann var allt í einu einn á móti Toby Alderweireld, varnarmanni Tottenham og Michel Vorm í marki Tottenham. Hann gerði vel að snúa á Alderweireld en skot hans hafnaði í stönginni. Stórhætta á ferð.

Á 72. mínútu kom svo loksins annað mark City en þar var á ferðinni Raheem Sterling sem kláraði vel eftir að hafa sprett í gegnum vörn Tottenham.

Brahim Diaz, sem hafði komið inn á sem varamaður hjá City, skoraði svo þriðja mark liðsins í uppbótartíma og gerði algjörlega út um leikinn.

Flottur 3-0 sigur Manchester City á vægast sagt mjög slöku Tottenham liði í Tennesee í kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×