Erlent

Kim Jong-Un segir gervöll Bandaríkin í færi

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong-Un fylgdist með nýjasta tilraunaskoti Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un fylgdist með nýjasta tilraunaskoti Norður-Kóreu. Vísir/EPA
Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, segir eldflaugaskot ríkisins í gær sýna fram á að gervöll Bandaríkin séu nú í færi þeirra. Í tilkynningu á vef KCNA, opinberri fréttaveitu Norður-Kóreu, er haft eftir Kim að Bandaríkin séu ekki örugg, reyni þau að gera árás á einræðisríkið.

Bæði Bandaríkin og Kína, helstu og einu bandamenn Norður-Kóreu, hafa gagnrýnt eldflaugaskotið.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í tilkynningu í dag að „með því að ógna heiminum“, væru þessi vopn og tilraunir eingöngu til þess fallnar að einangra Norður-Kóreu frekar, skaða efnahag ríkisins og koma niður á íbúum landsins.

Hann sagði, samkvæmt frétt Reuters, að Bandaríkin myndu taka „öll nauðsynleg skref til að tryggja öryggi landsins og bandamanna þeirra á svæðinu“.

Utanríkisráðuneyti Kína sendi frá sér tilkynningu þar sem tilraunaskot Norður-Kóreu eru sögð brjóta gegn samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og gegn óskum alþjóðasamfélagsins. Þá hvatti ráðuneytið alla viðkomandi aðila til að sýna stillingu og koma í veg fyrir frekari spennu á svæðinu.

Sérfræðingar segja nýjasta eldflaugaskot Norður-Kóreu gefa í skyn að eldflaugar þeirra gæti verið skotið á Bandaríkin.

Donald Trump sendi yfirvöldum í Kína tóninn á Twitter nú í kvöld. Þar lýsti hann yfir vonbrigðum sínum með aðgerðarleysi yfirvalda þar gagnvart Norður-Kóreu. Forsetinn sagði að fyrri forsetar hefðu leyft Kína að hagnast um hundruð milljarða dala, en þrátt fyrir það gerðu Kínverjar ekkert í málum Norður-Kóreu. Þeir tali eingöngu.

„Við munum ekki leyfa þessu að viðgangast. Kína gæti auðveldlega leyst þetta vandamál.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.