Erlent

Trump gagnrýnir viðskipti Kína og Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Xi Jinping funduðu í apríl.
Donald Trump og Xi Jinping funduðu í apríl. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur gagnrýnt Kína fyrir aukin viðskipti þeirra við einræðisríkið Norður-Kóreu. Hann segir að sú aukning hafi numið nærri því 40 prósentum á fyrsta fjórðungi ársins, þrátt fyrir miklar viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu.

Kína hefur um áraraðir verið eini bandamaður Norður-Kóreu.

Mikil spenna er á Kóreuskaganum, en Norður-Kóreu hefur ítrekað gert tilraunir með eldflaugar og kjarnorkuvopn á undanförnum árum, í trássi við ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Nú síðast skutu þeir langdrægri eldflaug á loft, sem yfirvöld þar í landi segja að geta borið kjarnorkuvopn.

„Viðskipti á milli Kína og Norður-Kóreu jukust um nærri því 40 prósent á fyrsta fjórðungi. Þar fór samstarfið með Kína, en við urðum að láta reyna á það,“ skrifar forsetinn á Twitter.





Trump fundaði með Xi Jinping, forsætisráðherra Kína í Bandaríkjunum í apríl og sagði fund þeirra hafa verið árangursríkan. Samkvæmt BBC virðist þó sem að tölurnar sem að Trump byggir tístið á hafi verið opinberar fyrir fund þeirra í apríl.

Jinping var í Rússlandi í gær þar sem hann hitti fyrir Vladimir Putin, forseta Rússlands. Þeir sögðu að nauðsynlegt væri að Bandaríkin og Suður-Kórea funduðu með Norður-Kóreu til þess að finna lausn á deilum þeirra. Báðir leiðtogarnir sögðust mótfallnir stjórnarbreytingum í Norður-Kóreu og að valdbeiting, jafnvel með blessun Öryggisráðsins, væri ekki ásættanleg.

Jinping og Putin kölluðu eftir því að Norður-Kórea myndi hætta tilraunum sínum og að Bandaríkin og Suður-Kóreu myndu hætta umfangsmiklum heræfingum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×