Erlent

Lögreglan þekkti til sprengjumannsins í Brussel

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögregluborði við aðallestarstöðin í Brussel í morgun.
Lögregluborði við aðallestarstöðin í Brussel í morgun. Vísir/AFP
Maðurinn sem er sagður hafa sprengt sprengju á lestarstöð í Brussel í gær var vopnaður naglasprengju og gashylkjum, að sögn belgískra embættismanna. Lögreglan þekkti til mannsins en hann hafði ekki verið bendlaður við hryðjuverkastarfsemi áður.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að maðurinn, sem var skotinn til bana af lögreglu á aðallestarstöðinni í Brussel, hafi verið 36 ára gamall Marokkói. Hann hafi komið frá hverfinu Molenbeek þaðan sem nokkrir aðrir hryðjuverkamenn hafa komið.

Saksóknari segir að sprengjumaðurinn hafi nálgast hóp farþega og reynt að sprengja upp skjalatösku. Hún hafi sprungið að hluta til, kviknað hafi í henni og hún sprungið aftur.

Maðurinn hafi að svo búnu hlaupið að stöðvarstjóranum og hermönnum og kallað „Allahu Akbar“ áður en hann var skotinn. Hann var ekki klæddur í sprengjubelti.

Öryggisráðstafanir í Brussel hafa verið hertar eftir tilræðið. Sérsveitarmenn hafa leitað í íbúð mannsins í Molenbeek.

Nokkrir árásarmannanna sem stóðu fyrir mannskæðum hryðjuverkum í borginni í fyrra og í París árið áður komu frá Brussel, þar á meðal Molenbeek.

 


Tengdar fréttir

Sprengjumaðurinn í Brussel er látinn

Maðurinn, sem sagður er hafa komið af stað sprengingu á Brussel-Centraal lestarstöðinni í belgísku höfuðborginni Brussel í dag, var skotinn til bana af öryggislögreglu.

Rýmdu aðallestarstöðina í Brussel

Belgískir fjölmiðlar segja að maður með sprengibelti hafi verið á lestarstöðinni en talsmaður lögregla segir að ekki stafi hætta af honum lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×