Erlent

Sprengjumaðurinn í Brussel er látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Belgískur hermaður ræðir við bílstjóra sjúkrabíls í grennd við Brussel-Centraal lestarstöðina í Brussel.
Belgískur hermaður ræðir við bílstjóra sjúkrabíls í grennd við Brussel-Centraal lestarstöðina í Brussel. Vísir/AFP
Maðurinn, sem sagður er hafa komið af stað sprengingu á Brussel-Centraal lestarstöðinni í belgísku höfuðborginni Brussel í dag, var skotinn til bana af hermönnum. Lestarstöðin var rýmd eftir að fréttir bárust af minniháttar sprengingu en saksóknarar í Brussel segja að um hafi verið að ræða tilraun til hryðjuverkaárásar.

Belgískir fjölmiðlar greindu frá því að sprengjumaðurinn hefði verið með sprengjubelti og bakpoka á Brussel-Centraal lestarstöðinni í dag. Hann var skotinn til bana af hermönnum eftir að lítil sprenging varð á stöðinni. Fréttastofa BBC segir engan annan hafa sakað við sprenginguna.

Maðurinn er sagður hafa náð athygli hermanna á lestarstöðinni og að því búnu sprengt sprengjuna. Þá er haft eftir einhverjum vitnum á stöðinni að maðurinn hafi ákallað Guð á arabísku áður en hann setti sprengjuna af stað.

Saksóknarar í Brussel segja jafnframt að málið verði rannsakað sem tilraun til hryðjuverkaárásar.

Aðaltorg borgarinnar, Grand Place, var einnig rýmt vegna sprengingarinnar og lokað var fyrir umferð nokkurra neðanjarðarlesta í borginni.

Alls létust 32 í hryðjuverkaárásum í Brussel í mars 2016 og hefur lögregla verið með mikinn viðbúnað í borginni síðan.


Tengdar fréttir

Rýmdu aðallestarstöðina í Brussel

Belgískir fjölmiðlar segja að maður með sprengibelti hafi verið á lestarstöðinni en talsmaður lögregla segir að ekki stafi hætta af honum lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×