Erlent

Helgi hlúði að slösuðum í nótt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sjúkraflutningamenn á vettvangi í nótt.
Sjúkraflutningamenn á vettvangi í nótt. Vísir/afp
Helgi Jóhannsson, svæfingarlæknir á St. Mary's-sjúkrahúsinu, var ræstur út í nótt til að hlúa að íbúum Grenfell Tower sem brann í nótt. Hann segir að allt hafi gengið vel þrátt fyrir að margir hafi slasast alvarlega.

St. Mary's er næsta sjúkrahús við íbúðarblokkina sem brann í Kensington-hverfinu í Lundúnum. Hið minnsta sex eru látnir og tugir slasaðir.

„Það var hringt í mig klukkan þrjú í nótt [að breskum tíma] og ég sá að það var stóratvik. Ég leit út um gluggann og fór út á svalir og þá sá ég bygginguna í logum,“ segir Helgi.

Fjöldi samstarfsmanna hans svaraði einnig kallinu og segir Helgi að þeir hafi hlúð að um sextán manns. Allt hafi gengið vel fyrir sig.

Vísir er með beina lýsingu og sjónvarpsútsendingu frá Bretlandi vegna brunans.

Helgi segir að starfsfólk spítalans sé orðið nokkuð vant því að taka við miklum fjölda fólks í einu. Þannig hafi hluti fórnarlamba árásarinnar á Westminster-brúnni í mars síðastliðinum verið flutt á St. Mary's.

Álaginu sé þó dreift milli spítala af sjúkraflutningaþjónustu Lundúna þannig að enginn einn spítali fari í yfirflæði. Helgi segir fyrirkomulagið hafa gefið góða raun.

„Við tókum marga, King's hospital í Suður-London tók nokkuð marga sem og Chelsea og aðrir spítalar í kring,“ segir Helgi sem áætlar að um 64 hafi þurft aðhlynningu vegna brunans.

„Hefðum við tekið alla 64 þá hefði flætt yfir hjá okkur en við höfðum nóg af fólki og gerðum þetta vel. Þetta fór allt eftir áætlun,“ segir Helgi. Margir hafi þó verið alvarlega slasaðir og stór hluti þeirra sem komu á St. Mary's hafi verið börn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×