Erlent

Bruninn í London: Maður greip ungabarn sem sleppt var frá tíundu hæð

Atli Ísleifsson skrifar
Mörg hundruð manns bjuggu í Grenfell Tower.
Mörg hundruð manns bjuggu í Grenfell Tower. Vísir/AFP
Ótrúlegar sögur berast nú frá Norður-Kensington í London þar sem mikill bruni kom upp í Grenfell Tower í nótt. Í frétt BBC segir að maður á jörðu niðri hafi náð að grípa ungabarn sem var sleppt út um glugga af níundu eða tíundu hæð hússins.

Samira Lamrani segir í samtali við Press Association að fólk hafi birst í gluggum hússins, barið í þá og öskrað.

„Gluggarnir voru aðeins opnir, kona gaf merki um að hún væri í þann mund að kasta barni sínu út um gluggann og spurði hvort einhver gæti gripið það. Einhver gerði það, maður hljóp fram og tókst að grípa barnið.“

Lamrani segist hafa séð fólk víðs vegar inni í byggingunni þar sem það barði í glugga og hrópaði á hjálp.

„Við sem vorum úti sögðum þeim að við höfðum gert það sem við gátum, höfðum hringt í neyðarlínuna. En svipurinn í andliti þeirra var augljóslega dauði.“

Lamrani segir enn fremur að vinkona dóttur sinnar hafi séð fullorðinn mann reynt að komast út um gluggann og nær jörðu með einhvers konar heimagerðri fallhlíf. Hún segir að hún hafi séð fjölda fólks í gluggum, aðallega börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×