Erlent

Bandaríkjaher og Trump á öndverðum meiði um aðgerðir gegn Katar

Kjartan Kjartansson skrifar
Viðskiptaþvinganirnar eru sagðar hafa mikil áhrif á fyrirtæki eins og Qatar Airways.
Viðskiptaþvinganirnar eru sagðar hafa mikil áhrif á fyrirtæki eins og Qatar Airways. Vísir/EPA
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna lofaði stjórnvöld í Katar á sama tíma og Donald Trump forseti reyndi að eigna sér viðskiptaþvinganir nokkurra arabaríkja gegn landinu í dag. Hvíta húsið segir ummæli Trump ekki til marks um stefnubreytingu af hálfu bandarískra stjórnvalda gagnvart Katar.

Meðal ríkja sem slitu tengsl við Katar eru Sádí-Arabía, Jemen, Egyptaland og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Katar á aðeins landamæri að Sádí-Arabíu en þeim hefur nú verið lokað. Katörskum borgurum hefur verið skipað að hafa sig á brott frá löndunum sem standa að þvingununum.

Ástæðan fyrir þvingununum eru óánægja ríkjanna með stuðning stjórnvalda í Katar við hópa eins og Bræðralag múslima og hryðjuverkamenn auk vináttu þeirra við Íran.

Brugðið vegna ummæla Trump

Bandaríkin hafa rekið herstöð í Katar í árabil. Varnarmálaráðuneytið var því varkárt þegar það tjáði sem um aðgerðirnar í dag. Lofaði það þarlend stjórnvöld fyrir áframhaldandi skulbindingu sína við öryggi í heimshlutanum samkvæmt frétt Reuters-fréttastofunnar. Bandarískir embættismenn sögðu jafnframt í gær að Bandaríkjastjórn myndi reyna að lægja öldurnar þar sem Katar væri of mikilvægt fyrir hagsmuni Bandaríkjanna í hernaðarlegu og diplómatísku tilliti.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lagði áherslu á að öll ríki við Persaflóa þyrftu að herða sig í að hætta stuðningi við öfgasamtök og hvatti þau til að leysa málið með viðræðum.

Trump fór hins vegar ekki eins fínt í hlutina þegar hann opnaði Twitter á símanum sínum í morgun. Í röð tísta lofaði hann Sáda fyrir að grípa til aðgerða gegn Katar og lét í það skína að aðgerðir Arabaríkjanna væru bein afleiðing heimsóknar hans til Sádí-Arabíu á dögunum.

Háttsettur embættismaður í Hvíta húsinu sem Washington Post ræddi við sagði að tíst Trump væru ekki til marks um að Bandaríkjastjórn hefði breytt um stefnu gagnvart Katar eða hefði nýjar upplýsingar. Aðgerðirnir sýndu hins vegar áhrif heimsóknar Trump á að einangra þá sem fjármagni hryðjuverk á svæðinu.

Bandaríska fréttasíðan The Hill segir hins vegar að Bob Corker, formanni utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings og þingmanni repúblikana, hafi verið brugðið þegar fréttamenn báru tíst forsetans undir hann.

„Ég vil sjá meira af því sem hann sagði,“ sagði Corker sem hafði ekki séð tíst Trump.


Tengdar fréttir

Samstarfsslitin skilja Katar eftir einangrað

Óvissa ríkir á Arabíuskaganum eftir að fjöldi ríkja sleit stjórnmála- og viðskiptasambandi við Katar í gær. Yfirvöld segja vegið að sjálfstæði landsins en halda því fram að aðgerðirnar komi ekki til með að hafa nein áhrif á daglegt líf borgaranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×