Íslenski boltinn

Milos þakkar fyrir sig: Leikmenn Víkings gerðu mig að betri þjálfara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Milos ásamt Helga Sigurðssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni hans hjá Víkingi.
Milos ásamt Helga Sigurðssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni hans hjá Víkingi. vísir/ernir
Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari Víkings R., þakkar fyrir sig í færslu sem hann birti á Facebook í gærkvöldi.

„Ég var ánægður að hafa unnið hjá Víkingi undanfarin níu ár í mismunandi hlutverkum og vil þakka öllum sem ég vann með hjá félaginu,“ skrifar Milos sem hætti óvænt sem þjálfari Víkings í gær.

„Ég er stoltur af öllu sem við afrekuðum á þessum tíma en allir sem þekkja mig skilja þegar ég segi að við hefðum getað gert betur,“ bætir Milos við.

Hann tók alfarið við Víkingi um mitt sumar 2015 og stýrði liðinu þá til 9. sætis í Pepsi-deildinni. Árið eftir endaði Víkingur í 7. sæti og setti stigamet félagsins í 12 liða deild.

Milos stýrði Víkingi í 47 leikjum í efstu deild; 15 þeirra unnust, 19 töpuðust og 13 lyktaði með jafntefli.

Í Facebook-færslunni ítrekar Milos þakklæti sitt til leikmannnanna sem hann starfaði með í Víkinni.

„Að lokum vil ég þakka öllum leikmönnunum sem ég var svo lánsamur að fá að þjálfa því góðir leikmenn gera þjálfara betri. Ég er sannfærður um að ég er betri þjálfari en ég var,“ skrifar Milos og klykkir út með að óska Víkingi alls hins besta í framtíðinni.

Í samtali við Vísi í gær sagði Milos óvíst hvað tæki við hjá sér. Hann sagðist þó ætla að halda áfram að þjálfa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×