Enski boltinn

Markakóngur annað árið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane skoraði sjö mörk í síðustu tveimur leikjum tímabilsins.
Harry Kane skoraði sjö mörk í síðustu tveimur leikjum tímabilsins. vísir/getty
Harry Kane skoraði þrennu þegar Tottenham rústaði Hull City, 1-7, í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Það er óhætt að segja að Kane hafi klárað tímabilið með stæl. Hann skoraði fernu í 1-6 sigri Tottenham á Leic­ester City á fimmtudaginn og skoraði því sjö mörk í síðustu tveimur leikjum tímabilsins.

Kane tryggði sér gullskóinn með þessum magnaða endaspretti á tímabilinu. Hann skoraði alls 29 mörk í 31 deildarleik, fjórum mörkum meira en Romelu Lukaku hjá Everton. Arsenal-maðurinn Alexis Sánchez varð þriðji með 24 mörk.

Kane varð einnig markakóngur í fyrra en þá skoraði hann 25 mörk. Hann varð þar með fyrsti Englendingurinn sem verður markakóngur tvisvar í röð síðan Michael Owen afrekaði það tímabilin 1997-98 og 1998-99.

Kane hefur núna skorað 76 mörk í 116 leikjum í ensku úrvalsdeildinni sem er frábær árangur.

Stóru málin eftir helgina í enska boltanum



Stærstu úrslitin

Liverpool tryggði sér Meistaradeildarsæti með 3-0 sigri á Middlesbrough. Það tók Liverpool tíma að brjóta Boro á bak aftur en eftir mark Georginios Wijnaldum í uppbótartíma fyrri hálfleiks var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda.

Hvað kom á óvart?

Bournemouth lyfti sér upp í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 1-1 jafntefli við Leicester City. Frábær niðurstaða fyrir Eddie Howe og félaga. Bourne­mouth var farið að nálgast fallsvæðið en gaf síðan hressilega í síðustu vikur tímabilsins og tapaði aðeins tveimur af síðustu 12 leikjunum.

Mestu vonbrigðin

Hull kvaddi ensku úrvalsdeildina í bili með niðurlægjandi 1-7 tapi fyrir Tottenham á heimavelli. Tígrarnir voru á góðri leið með að bjarga sér en gáfu mikið eftir á lokasprettinum og enduðu á því að falla í þriðja sinn á síðustu átta árum. Hull er því enn og aftur komið á byrjunarreit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×