Enski boltinn

Blackburn féll með lakari markatölu en Nottingham Forest

Dagur Sveinn Dagbjartsson skrifar
Blackburn Rovers er fallið úr ensku Championship deildinni.
Blackburn Rovers er fallið úr ensku Championship deildinni. vísir/getty
Botnbaráttan var í algleymingi í ensku Championship deildinni í fótbolta í dag. Fyrir leiki dagsins voru þrjú lið að berjast um fall, Birmingham, Nottingham Forest og Blackburn.

Blackburn var í verstu stöðunni fyrir umferðina. Liðið sat í 22. sæti með 48 stig, jafnmörg stig og Nottingham Forest en Forest var með örlítið betra markahlutfall. Birmingham var tveimur stigum fyrir ofan Blackburn og Nottingham Forest.

Nottingham Forest var eina liðið af þessum þremur sem átti heimaleik í dag. Liðið fékk Ipswich Town í heimsókn, á sama tíma og Blackburn heimsótti Brentford og Birmingham heimsótti Hörð Björgvin Magnússon og félaga hans í Bristol City.

Svo fór að öll liðin þrjú unnu sína leiki. Blackburn vann Brentford 3-1, Nottingham Forest vann Ipswich 3-0 og Birmingham vann Bristol City 1-0. Það þýðir að Blackburn féll með lakari markatölu en Nottingham Forest.

Framundan er úrslitakeppni um eitt laust sæti í ensku úrvalsdeildinni þar sem Reading mætir Fulham og Sheffield Wednesday mætir Huddersfield. Brighton og Newcastle höfðu þegar tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Einn Íslendingur var í byrjunarliði sín liðs í leikjum dagsins. Aron Einar Gunnarsson var á sínum stað í byrjunarliði Cardiff City sem gerði góða ferð til Huddersfield og vann 3-0 sigur.

Jón Daði Böðvarsson kom inn á sem varamaður hjá Wolves sem vann Preston 1-0 á heimavelli. Ragnar Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Fulham, Hörður Björgvin var ekki í leikmannahópi Bristol City og Birkir Bjarnason var ekki í leikmannahópi Aston Villa vegna meiðsla.

Úrslit dagsins:

Aston Villa 1-1 Brighton

Brentford 1-3 Blackburn

Bristol City 0-1 Birmingham

Burton 2-4 Reading

Huddersfield 0-3 Cardiff

Newcastle 3-0 Barnsley

Norwich 4-0 QPR

Nottingham Forest 3-0 Ipswich

Rotherham 1-1 Derby

Sheff. Wednesday 1-2 Fulham

Wigan 1-1 Leeds

Wolves 1-0 Preston




Fleiri fréttir

Sjá meira


×