Erlent

Hryðjuverk í Stokkhólmi: „Ég keyrði á hina trúlausu“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Fjórir létust og á annan tug slösuðust í árás mannsins.
Fjórir létust og á annan tug slösuðust í árás mannsins. Vísir/afp
Fjölmiðlar í Svíþjóð hafa nú nafngreint manninn sem grunaður er um að bera ábyrgð á hryðjuverkaárásinni í Stokkhólmi á föstudag. Bæði Expressen og Aftonbladet hafa nafngreint hann sem Rakhmat Akilov. Maðurinn var handtekinn síðastliðið föstudagskvöld og er sagður hafa játað verknaðinn.

„Ég keyrði á hina trúlausu,“ er haft eftir honum á vef Aftonbladet.

Greint var frá því fyrr í dag að hann hafi átt vini í íslamistasamtökunum Hizb ut-Tharir og hafi áður deilt áróðursmyndböndum ISIS á samfélagsmiðlum.

Nágrannar lýsa honum sem kurteisum og vinnusömum einfara sem starfaði í Svíþjóð til að sjá fyrir fjölskyldu sinni sem búsett er í Úsbekistan. Í viðtali við Expressen segir nágranni að maðurinn hafi opnað hurðir fyrir nágranna sína og aðstoðað við að halda á innkaupapokum.

Lögregla greindi frá því á fréttamannafundi í hádeginu að maðurinn hafi sótt um dvalarleyfi árið 2014, en síðasta sumar hafi þeirri umsókn verið hafnað og honum gert að yfirgefa landið. Hann var á lista sænskra yfirvalda yfir eftirlýsta menn þar sem hann hafði ekki orðið við þeirri beiðni. Um þrjú þúsund slík mál eru nú á borði sænskra yfirvalda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×