Erlent

Talsmaður Obama hafnar því að Trump hafi verið hleraður

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump og Barack Obama.
Donald Trump og Barack Obama. Vísir/EPA
Talsmaður Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, hafnar því alfarið að Obama hafi látið hlera síma Donald Trump, núverandi forseta, fyrir forsetakosningarnar í nóvember síðastliðnum. BBC greinir frá.

Í tilkynningu talsmannsins, Kevin Lewis, segir að „hvorki forsetinn né nokkur starfsmaður Hvíta hússins hafi fyrirskipað hleranir á símum nokkurs bandarísks borgara.“

Tilkynningin kom eftir að Trump tjáði sig á Twitter um klukkan hálf sex að morgni að staðartíma, að hann hafi komist að því að hann hafi verið hleraður að fyrirskipan Obama. Trump er um þessar mundir staddur á setri sínu í Flórída. Hann gaf þó engar nánari skýringar á því hvernig hann hefði komist að þessu né heldur lagði hann fram gögn máli sínu til stuðnings.

Áður hafði einn af fyrrverandi ráðgjöfum Obama, Ben Rhodes, tjáð sig um ummælin þar sem hann benti á að samkvæmt bandarískum lögum gæti enginn forseti fyrirskipað hleranir á almennum borgurum. Það væri gert til þess að vernda borgara fyrir forsetum eins og Trump.

Talið er að ásakanir Trump séu tilraunir til þess að dreifa athygli fjölmiðla frá rannsókn á tengslum ríkisstjórnar hans við Rússa. Nýverið dróg Jeff Sessions sig frá rannsókn alríkislögreglunnar á afskiptum Rússa af kosningabaráttunni, þar sem nú er talið víst að hann hafi fundað með rússneskum ráðamönnum þegar kosningabarátta Trump stóð sem hæst. 

Sjá einnig: Vandræði samherja Donalds Trump

Ummæli Trump má rekja til frétta á Breitbart fréttasíðunni, sem er í eigu Steve Bannon, helsta ráðgjafa Trump, um ásakanir Mark Levin, útvarpsmanns, sem hefur haldið því fram að Obama hafi látið hlera síma Trump í kosningabaráttunni.

Þar kallaði Levin eftir því að bandaríska þingið myndi rannsaka aðgerðir ríkisstjórnar Obama þegar kosningabaráttan stóð sem hæst. Ekki er vitað með hvaða hætti Levin fékk þessar upplýsingar né heldur er nokkuð vitað um sannleiksgildi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×