Íslenski boltinn

Björn: Menn höfðu ekki kjarkinn þegar á reyndi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Einarsson tapaði formannsslagnum á 71. ársþingi KSÍ sem fram fór í Vestmanneyjum í dag. Guðni Bergsson fékk 83 atkvæði eða sautján fleiri atkvæði en Björn sem stóð uppi með 66 atkvæði.

„Ég átti von á því að niðurstaðan yrði öðruvísi. Ég stefndi að því allan tímann að verða formaður því maður fer ekki út í svona nema til að vinna. Maður vill alltaf vinna þegar maður fer út í baráttu. Þetta kom mér mjög á óvart og ég er vonsvikinn,“ sagði Björn Einarsson í samtali við Eirík Stefán Ásgeirsson eftir að ársþinginu lauk.

Fannst honum stuðningurinn við hann dvína þegar leið á framboðið?

„Ég fann fyrir miklum meðbyr og svo jafnaðist baráttan. Þetta voru mjög ólík sýn á málin. Ég stóð fyrir mjög skýrum breytingum sem að ég tel að KSÍ þurfi mjög mikið á að halda. Það þarf að styrkja reksturinn, fá meira gegnsæi, meira traust og meiri trúverðugleika. KSÍ stendur á þannig grunni að þetta eru nauðsynleg skref fyrir KSÍ og ég hvet nýja forystu til að stíga þessi skref sem ég var að tala fyrir,“ sagði Björn.

Var fólkið á þinginu sammála því að það þurfi að fara í þær breytingar sem hann var að tala um?

„Ég var með mjög skýra framsetningu og uppsetningu allan tímann á mínu framboði og sló aldrei af þeirri hugmyndafræði. Ég var tilbúinn að standa og falla með þeirri hugmyndafræði því ég er svo viss um að þetta séu virkilega hugmyndirnar sem þurfa að ná inn til KSÍ núna,“ sagði Björn.

En hvað þarf helst að gerast?

„Það er mjög mikilvægt að fara yfir ímyndina og öðlast þetta gagnsæi, traust og trúveruleika sem sambandið verður að hafa. Það má segja að menn voru ekki tilbúnir í þessar breytingar og menn höfðu ekki kjarkinn þegar á reyndi. Niðurstaðan sýndi það í dag,“ sagði Björn.

Björn er formaður Víkings og hefur áður verið formaður knattspyrnudeildar Víkings. Mun hann áfram hafa afskipti af íþróttum og þá knattspyrnu sérstaklega?

„Já, að sjálfsögðu. Víkingur er mitt félag og það er hluti af hjartanu. Það er það sem rekur mann áfram alla daga. Núna eru mínir kraftar hundrað prósent í Víkingi og að sjálfsögðu í minni góðu og skemmtilegu vinnu,“ sagði Björn en hann er framkvæmdastjóri TVG-Zimsen á Íslandi.

Sér hann fyrir sér að gefa kost á sér til annarra trúnaðarstarfa innan KSÍ?

„Nei,“ sagði Björn sem ætlar heldur ekki að gefa aftur kost á sér þegar kosið verður um formann KSÍ í framtíðinni.

Það má sjá allt viðtalið við Björn Einarsson í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Maggi Gylfa kjörinn í aðalstjórn KSÍ

Borghildur Sigurðardóttir, Magnús Gylfason, Guðrún Inga Sívertsen og Vignir Már Þormóðsson voru öll kosin í aðalstjórn KSÍ á 71. ársþingi Knattspyrnusambandsins í Vestmannaeyjum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×