Íslenski boltinn

Besta leiðin til að bæta ímyndina er að vanda til verka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nýkjörinn formaður KSÍ, Guðni Bergsson, heldur hér ræðu á ársþinginu í Eyjum.
Nýkjörinn formaður KSÍ, Guðni Bergsson, heldur hér ræðu á ársþinginu í Eyjum. mynd/hilmar þór
Eftir hnífjafna og spennuþrungna kosningabaráttu hafði Guðni Bergsson betur í formannskjöri Knattspyrnusambands Íslands á ársþingi þess í Vestmannaeyjum um helgina. Guðni hlaut 83 atkvæði í kjörinu en Björn 66.

Þátttaka á þinginu var afar mikil en af 153 mögulegum þingfulltrúum voru 149 á þinginu í Eyjum. Af úrslitunum að dæma hefur knattspyrnuhreyfingin skipst í tvær fylkingar en það mátti heyra á þingfulltrúum um helgina að ekki væri búist við öðru en að íslensk knattspyrna myndi sameinast á ný undir forystu Guðna.

Engin hallarbylting strax

Guðni segir að hans fyrsta verk verði að setja sig inn í hlutina á skrifstofu KSÍ. Ræða við starfsfólk og meðlimi aðalstjórnar. Í kosningabaráttunni talaði hann fyrir því að ráða inn yfirmann knattspyrnumála en þess fyrir utan hefur Guðni ekki fyrirfram boðað stórtækar breytingar á rekstri sambandsins.

„Ég vil koma inn í starf sambandsins og kynna mér hlutina áður en ég tek ákvörðun um framhaldið í samráði við stjórn og starfsmenn,“ sagði Guðni. „En það er ljóst að þær breytingar sem ég hef talað fyrir snúa að skipuriti og skipulagi, eins og með faglegum yfirmanni knattspyrnumála. Ég tel það gæfuspor fyrir íslenskan fótbolta.“

Vanda til verka

Guðni bauð sig fram áður en Geir Þorsteinsson, sem lét af embætti formanns á þinginu um helgina, hafði ákveðið að bjóða sig ekki fram á nýjan leik. Guðni segir að bara sú staðreynd að hann hafi boðið sig fram, sýni að hann hafi viljað breytingar.

„Geir hefur skilað góðu búi og á heiður skilinn en ég taldi að það væri kominn tími á breytingar hjá KSÍ. En ég vil líka byggja á því sem gott er.“

Vill bæta ímyndina

Ímynd KSÍ hefur ekki alltaf verið góð undanfarin ár. Hitamál hafa ratað í fjölmiðla með reglulegu millibili en Guðni vonast til að þeir dagar séu að baki.

„Besta leiðin til að bæta ímyndina er að vanda til verka. Bæði ég og Björn settum á oddinn ákveðið gagnsæi í aðdraganda kosninganna og er vilji innan stjórnar til að auka það. Ef okkar fólk hefur það í huga og vandar sig við það sem þeir fást við, tel ég að þetta verði ekki vandamál í framtíðinni.“

Launamál verði skýr

Meðal þess sem hefur reglulega orðið að umfjöllunarefni fjölmiðla er hversu óskýr laun formanns KSÍ eru í ársreikningi sambandsins. Guðni vill gera breytingu á því.

„Launamál formanns verða algjörlega gegnsæ. Það er vilji til að hafa það þannig og verður það svo. Í huga margra hafa þessi mál ekki verið nógu skýr og umræða skapast um það. En ég vil færa það til betri vegar.“

Hann undirstrikar þó að rekstur KSÍ hafi verið góður hingað til og að hann taki við góðu búi.

„Landsliðin okkar eru í hæstu hæðum og starfið sem KSÍ hefur unnið á mörgum sviðum hefur verið mjög gott. Nú er markmið mitt að hafa starfið sem öflugast fyrir alla okkar aðildarfélaga. Ég vil til dæmis vinna að því að bæta aðstöðu þeirra og skoða hvort hægt sé að tækla ferðakostnað betur en hann hefur verið að sliga félögin á landsbyggðinni. Það eru svo mörg mál og vangaveltur sem ég er með og mun koma í ljós með tíð og tíma hverjar þær eru.“


Tengdar fréttir

Geir heiðraður af ÍSÍ og UEFA

Geir Þorsteinsson, fráfarandi formaður KSÍ, var í dag sæmdur gullmerki ÍSÍ á 71. ársþingi KSÍ sem nú stendur yfir í Vestmannaeyjum.

Maggi Gylfa kjörinn í aðalstjórn KSÍ

Borghildur Sigurðardóttir, Magnús Gylfason, Guðrún Inga Sívertsen og Vignir Már Þormóðsson voru öll kosin í aðalstjórn KSÍ á 71. ársþingi Knattspyrnusambandsins í Vestmannaeyjum í dag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.