Enski boltinn

Fékk yfir 250 þúsund jólakort og á nú líka mark mánaðarins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bradley Lowery.
Bradley Lowery. Vísir/AFP
Fimm ára stuðningsmaður Sunderland stal hjörtum Breta um jólin en strákurinn berst við krabbamein.

Bradley Lowery var heiðraður fyrir leik Sunderland og Chelsea í desember og markið sem hann skoraði við það tækifæri fékk viðurkenningu sem annað af mörkum mánaðarins hjá þættinum „Match of the Day“.  BBC segir frá.

Bradley Lowery deildi marki mánaðarins með Manchester United manninum Henrikh Mkhitaryan sem skoraði með spordrekaspyrnu á móti Sunderland.

Mkhitaryan fékk 39,9 prósent atkvæða en átta mörk voru tilnefnd. Forráðamenn „Match of the Day“ ákváðu hinsvegar að verða við fjölmörgum óskum um að mark Bradley Lowery yrði einnig verðlaunað. Þeir hafa fengið mikið hrós fyrir þá ákvörðun sína.

Bradley Lowery skoraði markið umrædda framhjá Asmir Begovic, varamarkverði Chelsea.

Bradley Lowery fékk í kjölfarið yfir 250 þúsund jólakort frá fólki í Bretlandi sem tók miklu ástfóstri við þennan litla strák sem vinnur hug og hjörtu allra sem kynnast honum. Hann á harðri baráttu við sjaldgæft og illkynja krabbamein.

Móðir Bradley Lowery segir strákinn sinn hafa verið afar kátur þegar hann sá að markið hans var valið mark mánaðarins. Hann fékk að horfa á „Match of the Day“ þáttinn daginn eftir.

Móðir hans vildi þakka sérstaklega bæði BBC og Sunderland fyrir ómetanlegan stuðning á þessum erfiðu tímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×