Enski boltinn

United vann en Liverpool tapaði í vítaspyrnukeppni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Juan Mata fagnar í leiknum í kvöld.
Juan Mata fagnar í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Juan Mata var hetja Manchester United sem vann Sampdoria í síðasta æfingaleik sínum þetta sumarið. United vann, 2-1, en leikurinn fór fram í Dublin á Írlandi.

Nemanja Matic lék sinn fyrsta leik fyrir United í kvöld en hann gekk í raðir félagins frá Chelsea fyrr í vikunni.

Henrikh Mkhitaryan kom United yfir á níundu mínútu en Dennis Praet jafnaði fyrir ítalska liðið snemma í síðari hálfleik, þrátt fyrir að United stýrði ferðinni lengst af.

Mata, sem kom inn á sem varamaður, skoraði níu mínútum fyrir leikslok og tryggði United þar með sigur í leiknum.

Liverpool spilaði einnig æfingaleik í kvöld, úrslitaleik Audi-bikarsins í Þýskalandi. Liðið mátti þó sætta sig við tap í vítaspyrnukeppni gegn Atletico Madrid eftir að staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1-1.

Keidi Bare kom Atletico yfir á 34. mínútu en Roberto Firmino jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu sem var dæmd eftir að brotið var á Divock Origi.

Atletico nýtti allar sínar spyrnur í vítaspyrnukeppninni en það var markvörðurinn Miguel Angel Moya sem var hetja spænska liðsins er hann varði spyrnu Jordan Henderson.

Síðasti leikur Liverpool á undirbúningstímabilinu verður gegn Athletic Bilbao í Dublin á laugardag. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Alfreð Finnbogason var í byrjunarliði Augsburg sem vann 4-0 stórsigur á Southampton í kvöld. Alfreð spilaði í 80 mínútur en náði ekki að skora.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×